Körfubolti

Lauflétt hjá Haukum í Hólminum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Óskarsson.
Haukur Óskarsson. Vísir/Vilhelm
Haukar tryggðu sér sæti í 16 liða úrslitum Poweradebikars karla í körfubolta eftir öruggan 44 stiga sigur á Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld, 89-45.

Þetta er í annað sinn sem Haukar bursta Hólmara á stuttum tíma en Haukar unnu einnig stórsigur þegar liðin mættust í fyrstu umferð Domino´s deildar karla.

Haukur Óskarsson skoraði 19 stig fyrir Haukaliðið og þeir Stephen Madison og Finnur Atli Magnússon voru báðir með 16 stig. Sherrod Wright skoraði mest fyrir Snæfell eða 14 stig.

Snæfell lék án fyrirliða síns Sigurðar Þorvaldssonar í kvöld og mátti ekki við því en Sigurður er að glíma við meiðsli í kálfa.

Þetta er í annað skiptið á þremur árum sem Haukarnir slá Snæfell út úr bikarnum en það gerðist einnig í sextán liða úrslitunum tímabilið 2013-14.

Haukar unnu fyrsta leikhlutann 24-12 og voru síðan fjórtán stigum yfir í hálfleik, 38-24. Haukaliðið gekk síðan endanlega frá leiknum með því að vinna þriðja leikhlutann 31-12. Haukar unnu síðan lokaleikhlutann 20-9 og því munaði heilum 44 stigum á liðunum í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×