Menning

Sjúkraþjálfari um Almar: „Engum kroppi hollt"

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, segir engum manni hollt að dvelja í svo litlu rými líkt og Almar.
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, segir engum manni hollt að dvelja í svo litlu rými líkt og Almar. Vísir/Youtube
Unnur Pétursdóttir, formaður félags sjúkraþjálfara ræddi um áhrif þess á líkamann að dvelja í litlum kassa í heila viku, líkt og listneminn Almar Atlason gerir nú um þessar mundir og frægt er orðið. Unnur var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis veltu því fyrir sér hvaða áhrif það gæti haft á manneskju að dvelja inn í svo litlum kassa í langan tíma. Almar geti ekki staðið, eða teygt úr sér, geti ekki sofið með útrétta fótleggi. Og spurðu: Er mönnum hollt eða miður hollt að búa í kassa í viku?

„Það má nú hverjum manni vera ljóst að það að dvelja í svona litlu rými í heila viku er engum kroppi hollt," segir Unnur.

„Og fólk þarf nú ekki annað en að fara í langa flugferð til að finna fyrir hvernig það fer með kroppinn að geta ekki rétt úr sér í margar klukkustundir. Hins vegar myndi ég nú segja  að fyrir ungan og hraustan mann mun hann sennilega ekki bera neinn varanlegan skaða af þessu. Hann verður eflaust lemstraður og aumur þegar hann kemur úr kassanum. En hreyfingarleysi er engum hollt og það vita menn. Bara það að leggjast í rúmið í nokkra daga getur haft byrjandi niðurbrotsáhrif á vöðva og annað slíkt."

En hvaða áhrif getur það haft á liði og annað að athafna sig í svona litlu rými?

Það er ótrúlega fljótt sem byrjar niðurbrot á vöðvavefjum ef það verður langvarandi hreyfingarleysi. Langvarandi þarf ekki að vera nema nokkrir dagar í raun og veru. Þess vegna er lagt allt kapp á það til að mynda á sjúkrahúsum og öldrunarheimilum að fá fólk fram úr rúminu. Fólk er farið að þekkja það hvað hreyfingarleysi er líkamanum skaðlegt," útskýrir Unnur og heldur áfram.

„En hinsvegar eins og ég segi, fyrir ungan og hraustan mann sem er með gott endurkerfi í kroppnum á þetta ekki að vera honum að skaða, allavega líkamlega. Ég ætla ekki að tjá mig um andlegu hliðina. Hins vegar má segja það að hann verður örugglega stirður. Liðir eru hannaðir til hreyfingar ekki kyrrstöðu, þannig að allt kerfið er hannað fyrir annað en það sem þessi ungi maður er að gera."

Um fátt annað en listgjörnin Almars hefur verið rætt í vikunni. Ísland í dag fór og heilsaði upp á Almar fyrr í kvöld og ræddi meðal annars við móður hans Katrínu Friðriksdóttur sem sagðist stolt af syni sínum. 

Bein útsending

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×