Menning

Tilvalið að dansa af sér veturinn á tónleikum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Það er líka til listahópur sem heitir Vinnslan. Í honum er Harpa Fönn sem sést hér með iPad.
Það er líka til listahópur sem heitir Vinnslan. Í honum er Harpa Fönn sem sést hér með iPad. Mynd/Úr einkasafni
Listahátíðin Vinnslan verður haldin nú á laugardagskvöldið í Tjarnarbíói. Um 30 listamenn sýna þar verk í vinnslu og fylla rými Tjarnarbíós með hinum ýmsu listformum.

„Það sem er skemmtilegast við hátíðina er fjölbreytnin því þar verða brot og atriði úr því ferskasta sem er að gerast í lifandi tónlist, myndlist, leikhúsverkum, dansi, gjörningum og vídeólist,“ segir Harpa Fönn Sigurjónsdóttir sem er meðal skipuleggjenda Vinnslunnar.

Hún segir allt Tjarnarbíó lagt undir, hvort sem um sé að ræða svið eða salerni, miðasölu, bar, æfinga-, búninga- eða sminkherbergi.

„Gestir fá dagskrárblað í hendur og geta svo gengið um og skoðað, hlustað og uppgötvað eitt og annað því listamennirnir sýna brot úr verkum sem þeir eru að þróa og fá viðbrögð áhorfenda við þeim, áður en þeir fullvinna þau.“

Þetta er tíunda Vinnslan, að sögn Hörpu Fannar, og allar hafa þær verið vel sóttar. „Til að byrja með voru þær í Norðurpólnum úti á Nesi og þangað komu um 300 á kvöldi,“ lýsir hún og segir héðan í frá stefnt að slíkri listahátíð árlega í apríl.

Meðal listamanna að þessu sinni eru Sigga Soffía, Stafrænn Hákon, Mikael Lind, Körrent, Quest, Einar Indra og Elín Anna Þórisdóttir.

Hátíðin stendur frá klukkan 19.30 til 23.

„Kvöldinu lýkur á tónleikum,“ segir Harpa Fönn. „Þá er tilvalið að dansa af sér veturinn.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×