Fótbolti

Mennirnir sem bjuggu til markið í úrslitaleik HM 2014 sameinaðir hjá Dortmund

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Schürrle og Götze fagna markinu sem tryggði Þjóðverjum heimsmeistaratitilinn 2014.
Schürrle og Götze fagna markinu sem tryggði Þjóðverjum heimsmeistaratitilinn 2014. vísir/getty
Borussia Dortmund heldur áfram að styrkja sig fyrir átökin í vetur.

Í dag greindi Dortmund frá því að þýski landsliðsmaðurinn André Schürrle væri genginn í raðir liðsins frá Wolfsburg. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en talið er að það sé í kringum 15,3 milljónir punda.

Hinn 25 ára gamli Schürrle skrifaði undir fimm ára samning við Dortmund sem endaði í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Í gær gekk Dortmund frá kaupunum á öðrum þýskum landsliðsmanni, Mario Götze, en þeir Schürrle bjuggu til markið sem tryggði Þýskalandi heimsmeistaratitilinn fyrir tveimur árum. Í úrslitaleiknum gegn Argentínu gaf Schürrle á Götze sem skoraði eina mark leiksins.

Schürrle lék áður með Mainz 05, Bayer Leverkusen og Wolfsburg í Þýskalandi og Chelsea á Englandi. Hann varð enskur meistari með Chelsea 2015 og þýskur bikarmeistari með Wolfsburg sama ár.

Dortmund mætir Manchester United í International Champions Cup í dag.

Leikurinn hefst klukkan 12:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×