Fótbolti

Aron: Fæ ekki fleiri tækifæri hjá Werder Bremen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron í baráttunni við Davinson Sánchez, leikmann Ajax.
Aron í baráttunni við Davinson Sánchez, leikmann Ajax. vísir/getty
Aron Jóhannsson segir að hann fái ekki fleiri tækifæri hjá Werder Bremen.

Aron gekk til liðs við Bremen frá AZ Alkmaar 2015 en hefur aðeins spilað 15 deildarleiki fyrir Bremen á tveimur árum.

Aron kom ekkert við sögu þegar Bremen vann 3-0 sigur á C-deildarliði Wurzburg um helgina. Hann segir að það sé merki um að hann fái ekki fleiri tækifæri hjá Bremen.

„Það lítur út fyrir að það sé ekki lengur þörf á mér hérna. Það eru mikil vonbrigði fyrir mig,“ sagði Aron í samtali við Deichstube.de.

Frank Baumann, íþróttastjóri Bremen, hefur sagt að félagið sé tilbúið að hlusta á tilboð í hinn 26 ára gamla Aron.

Samkvæmt heimildum Deichstube hafa félög á Grikklandi áhuga á Aroni. Hann vill þó helst halda kyrru fyrir í Þýskalandi.

„Ég myndi vilja vera áfram í Þýskalandi. Ég veit ekki hvað gerist. Ég veit bara að ég þarf að spila og ég fær það ekki lengur hjá Bremen,“ sagði Aron.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×