Enski boltinn

Emery gæti fundið staðgengil Ramsey í unglingastarfi Arsenal

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Unai Emery
Unai Emery vísir/getty
Unai Emery, stjóri Arsenal, kveðst ekki vera búinn að gera það upp við sig hvort hann muni láta til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar en hann er að klára sitt fyrsta tímabil sem stjóri Lundúnarliðsins.

„Við verðum að halda áfram að taka skref framávið og félagið er að vinna í því. Kannski verður mikið um félagaskipti en kannski verður lítið um það. Fyrst og fremst trúi ég því að við höfum sterkan grunn hér nú þegar,“ segir Emery.

Arsenal mun missa Aaron Ramsey frítt til Juventus en Emery útilokar ekki að hann muni leita inn á við til að finna arftaka hans. Þetta sagði hann þegar hann var spurður að því hvort hann væri farinn að leita leiða til að fylla skarð Walesverjans.

„Já en það eru líka strákar í akademíunni sem eru að standa sig vel og gætu tekið miklum framförum. Við gætum keypt leikmann til að fylla hans skarð en við gætum líka fundið arftaka í unglingastarfinu okkar og leyft honum að vaxa hér líkt og Ramsey gerði sjálfur,“ segir Emery.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×