Handbolti

Varði öll fjögur vítin sem hann fékk á sig gegn Brasilíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður varði tólf skot gegn Brasilíu, þar af fjögur víti.
Sigurður varði tólf skot gegn Brasilíu, þar af fjögur víti. mynd/ihf/
Sigurður Dan Óskarsson gerði sér lítið fyrir og varði öll fjögur vítaköstin sem hann fékk á sig í leik Íslands og Brasilíu í D-riðli heimsmeistaramóts U-19 ára í handbolta í Norður-Makedóníu í gær. Íslendingar unnu leikinn, 30-26, og eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Ísland hefur fengið sjö víti á sig á HM til þessa og Sigurður hefur varið sex, eða 83% þeirra víta sem hann hefur reynt sig við. Hann varði tvö af þremur vítum Túnisa á þriðjudaginn og öll fjögur víti Brasilíumanna í gær.

Enginn markvörður hefur varið fleiri víti á HM en Sigurður. Norðmaðurinn Thomas Langerud kemur næstur en hann hefur varið þrjú af þeim fimm vítum sem hann hefur fengið á sig á mótinu.

Sigurður varði tólf skot gegn Brasilíu í gær og var þriðjungur þeirra vítaskot. Hann varði einnig tvö langskot, tvö gegnumbrot, tvö færi úr hornum og tvö af línu. Hlutfallsmarkvarsla hans var 33%.

Í sigrinum á Túnis, 25-20, varði Sigurður 13 af þeim 33 skotum sem hann fékk á sig (39%).

Sigurður, sem leikur með FH, hefur varið næstflest skot allra markvarða á HM, eða 26 skot. Aðeins Ungverjinn Kristof Györi hefur varið fleiri skot, eða 31 talsins.

Næsti leikur Íslands er gegn Portúgal á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×