Fótbolti

Neuer með skilaboð til Ter Stegen: „Góður markvörður en ekki viss um að þetta hjálpi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ter Stegen og Neuer á æfingu Þýskalands.
Ter Stegen og Neuer á æfingu Þýskalands. vísir/getty
Manuel Neuer, markvörður þýska landsliðsins og Bayern Munchen, hefur sent örlitla stikkpillu á annan þýskan markvörð Marc-Andre ter Stegen.

Ter Stegen hefur ekki verið sáttur með fáa landsleiki á undanförnum árum en Neuer var í markinu er Þýskaland spilaði við Holland og Norður-Írland fyrr í mánuðinum.

Ter Stegen var á meðal þriggja bestu markverða í heimi á síðustu leiktíð að mati FIFA og hann spilaði fjölda leikja með landsliðinu í fjarveru Neuer 2017/2018.

Markvörður Barcelona steig fram í síðustu viku og opnaði sig um stöðuna. Hann var ekki sáttur með fáar mínútur í leikjunum í síðasta mánuði en viðtalið vakti mikla athygli.







Neuer gaf honum þó föðurleg ráð í viðtali við Sky Sports fréttastofuna í Þýskalandi.

„Mér finnst hann vera góður markvörður og hann er að standa sig vel en ég er ekki viss um að þetta hjálpi okkur,“ sagði Neuer.

„Við erum lið og ættum að haga okkur eftir því. Við erum með frábæra markverði; Kevin Trapp, Bernd Leno. Þetta eru allt frábærir markverðir sem vilja einnig spila og sitja á bekknum.“

„Við erum lið. Við verðum að standa saman og það þurfa markverðirnir líka að gera.“

Þýskaland mætir Eistlandi og Argentínu í næsta mánuði en reikna má með að Ter Stegen spili í þeim leikjum.

Þeir verða báðir í eldlínunni í Meistaradeildinni í vikunni. Bayern mætir Rauðu Stjörnunni en Börsungar heimsækja erkifjendur Bayern í Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×