Erlent

Reyndi að leita hjálpar en var dregin upp í bíl

Samúel Karl Ólason skrifar

Lögreglan í Las Vegas birti í gær myndband sem sýndi konu sem virtist vera á flótta undan mannræningja. Konan hljóp grátandi upp að hurð á húsi og barði á hurðina. Enginn virtist þó hafa verið heima og kom maður hlaupandi á eftir henni. Hann gekk í skrokk á konunni og dró hana upp í bíl.

Þegar maðurinn nálgaðist konuna kallaði hún á hann og sagði: „Hættu, Darnell. Gerðu það.“

Hann hljóp þó á konuna, henti henni í jörðina, sparkaði í hana og dró hana upp í bíl sem konan hafði hlaupið úr.

Þetta gerðist skömmu eftir miðnætti á gamlárskvöld en atvikið náðist á öryggismyndavél á heimilinu. Lögreglan birti myndbandið í von um að einhverjir gætu borið kennsl á fólkið.

Það bar árangur og með ábendingum frá almennum borgurum tókst rannsóknarlögreglumönnum að bera kennsl á manninn. Hann heitir Darnell Rodgers og var handtekinn í dag. Rodgers, sem er 23 ára gamall, á meðal annars yfir höfði sér ákærur fyrir mannrán og líkamsárás.

Lögreglan hefur ekki gefið út upplýsingar um konuna og hvort henni hafi verið rænt eða hvort að um heimilisofbeldi hafi verið að ræða.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið sem lögregla birti en rétt er að vara viðkvæma við því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×