Innlent

Aðildar­fé­lög BSRB boða til at­kvæða­greiðslu um verk­falls­boðun

Eiður Þór Árnason skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Vísir/Vilhelm

Öll aðildarfélög BSRB sem semja við ríki og sveitarfélög og hafa verkfallsrétt hafa samþykkt að undirbúa atkvæðagreiðslur um verkfallsboðun.

Þetta var niðurstaða fundar sem boðaður var klukkan 15 í dag með samningseiningum BSRB.

Atkvæðagreiðslurnar fara fram hjá hverju félagi fyrir sig 17. til 19. febrúar næstkomandi og er áætlað að áformaðar aðgerðir hefjist í mars, er fram kemur í tilkynningu frá BSRB.

Um nítján þúsund starfsmenn ríkis og sveitarfélaga starfa undir kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og hafa félögin verið kjarasamningslaus í á ellefta mánuð.

Kjarasamningaviðræðum aðildarfélaga BSRB við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga var vísað til ríkissáttasemjara í lok september á síðasta ári.

Viðræður munu nú halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða að sögn BSRB.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB starfa meðal annars á Landspítalanum og í annarri heilbrigðisþjónustu, í velferðarþjónustu, skólum, leikskólum og frístundaheimilum, í sundlaugum, íþróttamahúsum og þjónustu við aldraðra og fólk með fötlun, er fram kemur í tilkynningunni.

Eftirtalin aðildarfélög BSRB hafa samþykkt að hefja undirbúning verkfallsaðgerða:

  • Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
  • Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
  • Félag starfsmanna stjórnarráðsins
  • FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
  • Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
  • Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Sjúkraliðafélag Íslands
  • Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
  • Starfsmannafélag Fjallabyggðar
  • Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
  • Starfsmannafélag Garðabæjar
  • Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
  • Starfsmannafélag Húsavíkur
  • Starfsmannafélag Kópavogs
  • Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
  • Starfsmannafélag Suðurnesja
  • Starfsmannafélag Vestmannaeyja

Tengdar fréttir

Kjaraviðræðum BSRB og ríkisins slitið

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir viðræður lítið sem ekkert hafa þokast áfram, með tilliti til styttingu vinnuvikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×