Innlent

Gular við­varanir vegna sunnan­storms og leysinga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kort Veðurstofunnar vegna gulra viðvarana um landið.
Kort Veðurstofunnar vegna gulra viðvarana um landið. veðurstofa íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir um land allt vegna sunnanstorms og leysinga.

Varað er við leysingum á öllu landinu og má reikna með vatnavöxtum og auknum líkum á krapaflóðum. Eru íbúar hvattir til að hreinsa frá niðurföllum og fráveituskurðum. Viðvaranir vegna leysinga tóku gildi klukkan 16 í dag og standa til klukkan 12 á fimmtudag.

Á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi Vestra og Norðurlandi eystra er síðan varað við sunnanstormi en þó ekki fyrr en á fimmtudag. Er veðrið sem spáð er varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Viðvaranirnar taka gildi á fimmtudagsmorgun og standa mislengi fram eftir degi eftir landshluta. Á Breiðafirði er gul viðvörun í gildi frá klukkan fimm á fimmtudagsmorgun og til klukkan 11.

Er spáð sunnan 15 til 23 metrum á sekúndu með staðbundnum vindstrengjum að 35 metrum á sekúndu.

Á Vestfjörðum tekur gul viðvörun gildi klukkan sjö á fimmtudagsmorgun og stendur til klukkan 13. Sunnan 15 til 23 metrar á sekúndu með staðbundnum vindstrengjum allt að 40 metrum á sekúndu.

Sama er uppi á teningnum á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra þar sem viðvörunin gildir reyndar aðeins lengur, eða frá klukkan sex á fimmtudagsmorgni til klukkan 15.

Má búast við staðbundnum vindstrengjum að 40 metrum á sekúndu á Ströndum og Norðurlandi vestra sem og á Tröllaskaga og í Eyjafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×