Innlent

Rang­færslur um hóp­smit á Ís­landi birtar í norskum fjöl­miðlum

Atli Ísleifsson skrifar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis. Vísir/Vilhelm

Norska Dagbladet segir frá því í frétt í dag að einn smitaður einstaklingur sem komið hafi til Íslands frá Balkanskaga á meginlandi Evrópu hafi valdið rúmlega hundrað manna hópsýkingu hér á landi. Aðstoðarmaður landlæknis segir norska blaðamanninn hafa misskilið svör hans um stöðuna á Íslandi.

Í greininni er rætt við Kjartan Hrein Njálsson, aðstoðarmann landlæknis, en Kjartan Hreinn segir í samtali við Vísi að þetta sé alls ekki það sem hann sagði við norska blaðamanninn.

„Þarna er ekki rétt með farið og er búið að senda ábendingu um þetta á blaðamanninn sem ætlar að taka mið af því í fréttinni sinni og uppfæra,“ segir Kjartan Hreinn.

Skjáskot af frétt Dagbladet.

Hann segir að þarna hafi einhver misskilningur átt sér stað í grein þar sem fjallað er um fjölgun smita hér á landi.

„Ég segi við blaðamanninn að að liggi ekki fyrir hvernig þetta afbrigði af veirunni kom til landsins. Þetta afbrigði er það sem hefur grafið um sig hérna og er að valda þessum hópsýkingum hér. Hann hefur væntanlega misskilið þetta á þann veg að einn einstaklingur hafi valdið þessu. Ég var hins vegar nokkur skýr með það – að ég hélt – að það væri ekki hægt að segja nákvæmlega hvernig þetta kemur til landsins. Hvort að það sé einn einstaklingur, eða hópur. Það er ekki eitthvað sem okkur hefur tekist að átta okkur á og ekkert víst að það muni takast. Þar liggur misskilningurinn,“ segir Kjartan Hreinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×