Að sögn Víðis er þó örlítið áhyggjuefni hversu fáir eru að mæta í sýnatöku. Það sé spurning hvort fólk sé að slaka á varðandi sýnatökurnar en hann ítrekar mikilvægi þess að allir fari í sýnatöku sem finna fyrir smávægilegum einkennum.
„Þeim hefur fækkað sem eru að koma í sýnatöku, við erum að spá í hvort fólk sé að slaka á í því. Það eru töluvert færri sýni tekin í þessari viku heldur en í vikunni á undan.“
Hann segir þó vel geta verið að færri séu að veikjast, enda virðist vera minna um árstíðabundnar flensur en alla jafna. Það mætti mögulega rekja til grímunotkunar og áherslu á almennar sóttvarnir.
„Það er klárlega eitt af því sem gæti skipt mjög miklu máli. Grímurnar eru að virka og vísindamenn hafa verið að sýna fram á það, það klárlega hefur áhrif,“ segir Víðir og bætir við að fólk virðist huga almennt betur að sóttvörnum þegar það er með grímur.
Væri ferlegt að fá fjórðu bylgjuna ofan í bólusetningar
„Við erum ekki alveg sloppin út úr þessari þriðju bylgju, svo við viljum hvetja alla til að hafa varann á sér áfram og sjá hvernig þetta þróast næstu daga,“ segir Víðir um þróun undanfarinna daga.
Í síðustu viku var slakað á takmörkunum og segir hann taka nokkra daga, jafnvel vikur, að sjá hver áhrifin verða. Hann trúi því að fólk hafi lært af fyrri bylgjum og fari ekki of geyst af stað þó slakað hafi verið á samkomutakmörkunum.
„Það væri ferlegt að fara að fást við fjórðu bylgjuna núna þegar við erum að fara að keyra bólusetningarnar fulla ferð.“
Sjálfur smitaðist Víðir af kórónuveirunni á síðasta ári og greindi frá því í viðtali í Bítinu að hann væri enn að glíma við eftirköst veikindanna. Hann segist nú finna fyrir minni heilaþoku en áður og getur unnið heilan vinnudag. Þetta hafi þó verið skrítinn tími.
„Mér finnst ég finna dagamun á mér. Mér ég finnst ég vera á réttri leið.“