Umfjöllun: Ísland - Ítalía 1-1 | Jafnt í Coverciano

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland gerði jafntefli við sterkt lið Ítalíu í dag.
Ísland gerði jafntefli við sterkt lið Ítalíu í dag. getty/Gabriele Maltinti

Ísland og Ítalía gerðu 1-1 jafntefli í seinni vináttulandsleik liðanna í Coverciano í Flórens í dag. Ítalir unnu fyrri leikinn á laugardaginn, 1-0.

Valentina Giacinti kom Ítalíu yfir strax á upphafsmínútu leiksins en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir jafnaði fyrir Ísland á 40. mínútu með sínu öðru landsliðsmarki.

Íslenska liðið getur ágætlega við unað eftir leikina tvo sem voru þeir fyrstu undir stjórn Þorsteins Halldórssonar. Hann hefur gert nokkrar breytingar á leikstíl íslenska liðsins. Sú augljósasta er að Íslendingar spila nær alltaf frá markverði og leggja áherslu á að halda boltanum innan liðsins.

Það gekk að mestu vel í leikjunum tveimur og það var hressandi að sjá að íslenska liðið óhrætt að láta boltann ganga, jafnvel undir pressu, gegn sterkum andstæðingi. Varnarleikurinn var að mestu sterkur í leikjunum tveimur en Íslendingar geta gert betur á sóknarþriðjungi vallarins.

Þorsteinn gerði sjö breytingar á byrjunarliði Íslands frá leiknum á laugardaginn. Hafrún Rakel Halldórsdóttir var til að mynda í fyrsta sinn í byrjunarliði í landsleik.

Níu breytingar voru á byrjunarliði Ítalíu sem tefldi fram talsvert sterkara liði en í fyrri leiknum.

Ítalir fengu sannkallaða draumabyrjun því strax á upphafsmínútu leiksins komust þeir yfir. Valentina Bergamaschi skeiðaði þá fram hægri kantinn og átti fyrirgjöf á fjær þar sem Giancinti kom boltanum í netið úr afar þröngu færi.

Nokkur skjálfti var í íslenska liðinu eftir þessa slæmu byrjun og því gekk erfiðlega að halda boltanum, sérstaklega framarlega á vellinum. Giancinti fékk ágætis tækifæri á 12. mínútu en skaut yfir.

Íslenska liðið vann sig betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og spilið gekk alltaf betur og betur. Sterkur vindur var í Coverciano í dag sem setti svip sinn á leikinn og gerði leikmönnum nokkuð erfitt um vik.

Á 26. mínútu komst Berglind Björg Þorvaldsdóttir í dauðafæri eftir sendingu inn fyrir ítölsku vörnina frá Sveindísi en skaut beint á Lauru Giulini í ítalska markinu.

Fimm mínútum fyrir hálfleik jafnaði Karólína með góðu skoti frá vítateigslínu eftir að Sveindís lagði boltann út á hana. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir vann boltann með góðri pressu í aðdraganda marksins. Hún átti afar góðan leik og tengdi miðju og sókn með kröftugum hlaupum fram völlinn. Glódís Perla Viggósdóttir átti einnig skínandi góðan leik í íslensku vörninni en þær Gunnhildur stóðu upp úr hjá Íslandi í dag.

Ítalska liðið var ívið sterkari í seinni hálfleik og herti tökin eftir því sem á hann leið. Íslenska liðið átti ágætis spilkafla en fékk fá afgerandi færi. Sveindís var áfram hættuleg en minna bar á stöllum hennar í framlínunni.

Annamaria Serturini var hættuleg á vinstri kantinum hjá Ítalíu og á 72. mínútu slapp hún úr gæslu Hafrúnar Rakelar Halldórsdóttur en fyrirgjöf hennar rataði ekki á samherja.

Varamaðurinn Elena Linari fékk langbesta færi Ítalíu í seinni hálfleik á 82. mínútu en skaut framhjá eftir aukaspyrnu.

Í uppbótartíma kom allt í einu mikill kraftur í íslenska liðið. Elín Metta Jensen átti frábært skot af löngu færi sem Giuliani varði aftur fyrir og Sveindís átti svo skot beint á markið skömmu síðar.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og niðurstaðan í Coverciano 1-1 jafntefli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira