Innlent

Varað við stormi á Vestfjörðum síðdegis

Kjartan Kjartansson skrifar
Spáð er hvassviðri eða stormi norðvestantil síðdegis og fram á morgundaginn. Myndin er úr safni.
Spáð er hvassviðri eða stormi norðvestantil síðdegis og fram á morgundaginn. Myndin er úr safni. Vísir/RAX

Gul viðvörun vegna norðaustan hvassviðris eða storms með snjókomu tekur gildi á Vestfjörðum síðdegis. Spáð er 15-23 metrum á sekúndu og rigningu eða slyddu en snjókomu á fjallvegum

Ganga á í norðaustan hvassviðri eða storm norðvestantil á landinu. Viðvörunin á Vestfjörðum gildir frá klukkan 17:00 síðdegis til klukkan 14:00 á morgun. 

Vegagerðin varar við því að á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum sé útlit fyrir krapa síðdegis. Í kvöld eigi að kólna og gera hríð. Á morgun er spáð norðaustan 17-22 metrum á sekúndu og snjóbyl á sömu heiðavegum. Á Klettshálsi er spáð skafrenningi og blindu en hríð á Gemlufallsheiði.

Suðvestantil á að vera að mestu þurrt í dag. Mun hægara veður verður annars staðar á landinu en norðvestantil á morgun. Draga á úr vindi og úrkomu þar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×