Fótbolti

Arnór flaug yfir skilti: „Ég var heppinn“

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðsmanninum Arnóri Sigurðssyni var ýtt yfir auglýsingaskilti í æfingaleik.
Landsliðsmanninum Arnóri Sigurðssyni var ýtt yfir auglýsingaskilti í æfingaleik. Skjáskot Expressen/Getty

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson segist hafa haft heppnina með sér að meiðast ekki rétt fyrir upphaf keppnistímabilsins í sænska fótboltanum, þegar honum var ýtt yfir auglýsingaskilti.

Arnór var að spila með liði sínu Norrköping gegn danska liðinu Viborg í æfingaleik á Spáni í gær, þegar hann flaug yfir auglýsingaskilti eftir baráttu við leikmann Viborg.

Fotbollskanalen segir að þjálfarateymi Norrköping hafi beðið órólegt eftir því að Arnór kæmi sér á fætur, sem hann gerði eftir að hafa legið um stund á jörðinni og vörpuðu menn þá öndinni léttar.

„Þetta leit ekki vel út. Ég var úti á kanti, snerti boltann og síðan ýtti hann mér út fyrir. Ég var heppinn,“ sagði Arnór við Fotbollskanalen.

Arnór var ánægður með baráttuna í liði Norrköping í leiknum og telur liðið núna tilbúið í sænska bikarinn sem hefst eftir rúma viku. Liðið mætir þar Gais 19. febrúar og svo Utsikten og IFK Gautaborg.

Arnór er enn samningsbundinn CSKA Moskvu í Rússlandi en út af reglum sem FIFA setti vegna innrásar Rússa til Úkraínu gat hann farið að láni til Svíþjóðar. 

Lánssamningurinn gildir til 30. júní en Glen Riddersholm, þjálfari Norrköping, sagðist við Fotbollskanalen vonast til að halda Arnóri að minnsta kosti út þetta ár, enda þótti Arnór einn af betri mönnum sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×