Fótbolti

Rúnar Már lék allan leikinn í jafntefli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rúnar Már í leik með Voluntari.
Rúnar Már í leik með Voluntari. Vísir/Getty

Rúnar Már Sigurjónsson lék allan leikinn með Voluntari sem gerði 2-2 jafntefli gegn Chindia Targoviste í rúmensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Lið Voluntari og Chindia Targoviste leika bæði í úrslitakeppni liða í neðri hluta rúmensku deildarinnar en þar leika þau lið sem lentu í 7. - 16. sæti deildakeppninnar. Fyrir leikinn voru Rúnar Már og félagar hans í Voluntari í ágætum málum, þeir sátu í fjórða sæti umspilsins en Targoviste í því næst neðsta.

Það leit líka út fyrir að liðsmenn Voluntari myndu fara þægilega í gegnum leikinn í dag. Liðið tók forystuna á 42. mínútu þegar Vitalie Damascan skoraði og þeir bættu við öðru marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks og þar var á ferðinni Aymar Meleke.

Í síðari hálfleik átti heimaliðið hins vegar fína endurkomu. Þeir minnkuðu muninn strax í upphafi síðari hálfleiks og stundarfjórðungi fyrir leikslok jafnaði Andrei Serban metin. 2-2 urðu lokatölurnar í leiknum og sitja Rúnar Már og Voluntari í öðru sæti úrslitakeppninnar og með stiginu tryggðu þeir sér sæti í umspili um sæti í Sambandsdeild Evrópu á næsta ári.

Rúnar Már lék allan leikinn fyrir Voluntari í dag og náði sér í gult spjald á 77. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×