Fótbolti

Varað við grófu svindli vegna Messi-æðis í Kína

Sindri Sverrisson skrifar
Kínverskir aðdáendur biðu spenntir eftir komu argentínska landsliðsins, og sérstaklega Lionels Messi, í Peking.
Kínverskir aðdáendur biðu spenntir eftir komu argentínska landsliðsins, og sérstaklega Lionels Messi, í Peking. Getty/Lintao Zhang

Mörg hundruð manns biðu fyrir utan hótelið sem Lionel Messi gisti á í Peking í nótt, í von um að berja argentínska knattspyrnugoðið augum. Lögregla hefur hins vegar varað við grófu svindli í tengslum við komu hans.

Messi er mættur til Kína vegna vináttulandsleiks Argentínu og Ástralíu sem fram fer á fimmtudaginn. Mikil eftirspurn er eftir miðum á leikinn en þeir voru seldir fyrir á bilinu 11.000 til 93.000 krónur, en hafa verið endurseldir á allt að 350.000 krónur.

Hins vegar er mikið meira um að óprúttnir aðilar reyni að hagnast á æðinu í kringum Messi, sem hefur unnið Gullboltann sjö sinnum og er ríkjandi heimsmeistari með Argentínu.

Lionel Messi stígur út úr flugvél argentínska landsliðsins eftir lendingu í Peking.Getty

Til að mynda hafa þeir lofað að fólk megi hitta Messi fyrir andvirði um sex milljóna króna, og grínaðist lögreglan í Peking með þetta á samfélagsmiðlinum Weibo og skrifaði:

„Ef að það er hægt að svindla á þér fyrir 300.000 júan þá lyftum við bara glasi þér til heiðurs.“

Einnig hefur verið boðið upp á gervimiða á leikinn fyrir 100.000 krónur, VIP-pakka með áritraði treyju og mynd fyrir 150.000 krónur, og að fá Messi til að tala vel um eitthvað ákveðið fyrirtæki í beinni útsendingu fyrir tæplega milljarð króna, svo dæmi séu tekin.

Leikur Argentínu gegn Ástralíu verður fyrsti leikur Messi eftir að hann gekk í raðir bandaríska félagsins Inter Miami frá PSG á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×