Enski boltinn

„Þeir hefðu getað náð jöfnunar­marki“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erik Ten Hag ræðir málin við dómara leiksins eftir leikinn í dag.
Erik Ten Hag ræðir málin við dómara leiksins eftir leikinn í dag. Vísir/Getty

Knattspyrnustjórinn Erik Ten Hag var vitaskuld nokkuð sáttur eftir 1-0 sigur Manchester United á Luton Town á Old Trafford í dag. Hann sagði mikilvægt að hans menn sneru heilir heim úr landsleikjatörninni

Manchester United vann í dag nauman 1-0 sigur á Luton Town þegar liðin mættust á Old Trafford í Manchester. Svíinn Victor Lindelöf skoraði sigurmarkið í síðari hálfleik og í viðtali við BBC eftir leik sagði Erik Ten Hag knattspyrnustjóri United að sigurinn hefði verið nauðsynlegur.

„Þetta er góður dagur. Við þurftum sigurinn og við náðum honum. Við hefðum geta auðveldað okkur lífið með því að skora snemma og ná seinna markinu. Við sköpuðum færin en við skoruðum ekki nema úr einu,“ sagði Ten Hag en sigurmark Lindelöf kom á 59. mínútu leiksins í dag.

„Ég er ánægður með þetta og að við héldum hreinu. Við áttum mörg færi í fyrri hálfleiknum og áttum að skora úr allavega einu. Eftir hlé að ná svo síðari markinu og þá er leikurinn farinn. Við héldum þeim á lífi og þeir hefðu getað náð jöfnunarmarki ef boltinn hefði endað á röngum stað.“

Rasmus Höjlund fór meiddur af velli. Hann á enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni en hefur verið að skotskónum í Meistaradeildinni.

„Rasmus Höjlund er búinn að skora fimm sinnum í Meistaradeildinni. Hann er með sjálfstraustið og mörkin munu koma,“ bætti Ten Hag við. Hann minntist ekki á meiðsli Höjlund sem virtust minniháttar.

Eftir landsleikjahléið sem nú er framundan á United þrjá útileiki í röð. Fyrst mæta þeir Everton, halda síðan til Tyrklands og mæta Galatasaray í gríðarlega mikilvægum leik í Meistaradeildinni áður en þeir mæta Newcastle í stórleik í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×