Upp­gjörið: Valur - Stjarnan 2-2 | Gylfi Þór jafnaði með stór­kost­legu marki

Hjörvar Ólafsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði stórgott jöfnunarmark.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði stórgott jöfnunarmark. Vísir/Pawel

Valur og Stjarnan skildu jöfn 2-2 þegar liðin leiddu saman hesta sína á N1-völlinn að Hlíðarenda í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Leikurinn var liður í fyrstu umferð í keppni efstu liða deildarinnar.

Stjarnan hefði getað galopnað baráttuna um að tryggja sér þriðja sæti deildarinnar og þar af leiðandi þátttökurétt í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á næsta keppnistímabili upp á gátt með sigri í þessum leik.

Stjarnan komst í 2-0 í leiknum en Valsmenn komu til baka og náðu í mikilvægt stig í vegferð liðsins að sæti í Sambandsdeildinni.

Hilmar Árni Halldórsson kom Stjörnunni yfir með smekklegu marki eftir rúmlega 20 mínútna leik. Óli Valur Ómarsson átti þá góðan sprett upp hægri vænginn og lagði boltann á Hilmar Árna sem setti boltann á hnitmiðaðan hátt í fjærhornið.

Adolf Daði Birgisson tvöfaldaði svo forystu Stjörnuliðsins þegar hann skoraði með skoti af stuttu færi skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Hilmar Árni átti þá fína hornspyrnu, Emil Atlason náði ágætis skalla sem Ögmundur Kristinsson sló fyrir Adolfs Daða sem setti boltann í netið.

Valsmenn hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Albin Skoglund minnkaði muninn þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Patrick Pedersen átti þá góða stoðsendingu á Skoglund sem skoraði sitt fyrsta deildarmark í Valstreyjunni.

Þá var komið að Gylfa Þór Sigurðssyni að sýna skottækni sína en hann jafnaði metin með þrumuskoti sem söng í samskeytunum.

Þrátt fyrir að bæði lið fengu fín færi til þess að tryggja sér sigurinn varð niðurstaðan 2-2 jafntefli sem Valsmenn eru líklega bara nokkuð sáttir við.

Valur situr í þriðja sæti með 39 stig og Stjarnan er sæti neðar með 35 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira