Innherji
Ísfélagið verðmetið á yfir 110 milljarða í útboði á um fimmtán prósenta hlut
Sjávarútvegsfyrirtækið Ísfélagið, sem varð til við sameiningu Ísfélags Vestmannaeyja og Ramma um mitt þetta ár, hefur ákveðið að hefja almennt hlutafjárútboð þar sem til stendur að selja tæplega fimmtán prósenta hlut í félaginu. Miðað við lágmarksgengið í tilboðsbók A í útboðinu, sem er beint að minni fjárfestum, er fyrirtækið verðmetið á samtals rúmlega 110 milljarða króna.
Hærri álagning fyrirtækja vegur ekki „þungt í þróun verðbólgu“
Miklar launahækkanir hafa verið „megin drifkraftur“ mikillar verðbólgu hérlendis, ekki aukinn hagnaður fyrirtækja. Aukinn hlutur hagnaðar fyrirtækja hefur verið nokkru minni en aukinn launakostnaður á undanförnum árum, sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á fundi þar sem vaxtaákvörðun var kynnt í morgun.
Vöxtum Seðlabankans haldið óbreyttum þótt verðbólguhorfur hafi versnað
Þrátt fyrir meiri spennu í þjóðarbúinu og versnandi verðbólguhorfur þá hefur peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum í 9,25 prósentum í annað skiptið í röð vegna óvissu um efnahagslegu áhrifin af jarðhræringunum á Reykjanesskaga. Ákvörðunin er í takt við væntingar nærri allra markaðsaðila og greinenda en peningastefnunefndin undirstrikar að mögulega þurfi að hækka vexti enn frekar síðar meir.
Bókunum fækkað um 20 prósent hjá bílaleigu vegna jarðhræringa
Fyrir rúmri viku fór að bera á færri bókunum hjá bílaleigum vegna jarðhræringa á Reykjanesi og mögulegs eldgoss. Þeim fækkaði um 20 prósent hjá einni bílaleigu. Framkvæmdastjóri hótelsamstæðu segir að í upphafi jarðhræringa hafi borið á afbókunum en þær hafi síðan „fjarað út“.
Treble stefnir á um tveggja milljarða fjármögnun frá erlendum fjárfestum
Djúptæknifyrirtækið Treble Technologies stefnir á 12-15 milljón evra fjármögnun, jafnvirði 1,8-2,3 milljarða króna, frá erlendum fjárfestum og fjölga starfsmönnum úr 32 í um 50 hérlendis. Evrópski fjárfestingarbankinn hefur skuldbindið sig til að taka þátt í fjárfestingarlotunni og leggja fram jafn háa fjárhæð og safnast frá öðrum fjárfestum, upplýsir framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins.
Óvissan á Reykjanesskaga knýr Seðlabankann til að halda vöxtum óbreyttum
Allt útlit er fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi vöxtum óbreyttum í vikunni vegna þess óvissuástands sem ríkir út af jarðhræringunum á Reykjanesskaga en markaðsaðilar og hagfræðingar hafa ekki verið eins samstíga í væntingum sínum um ákvörðun nefndarinnar um langa hríð. Nánast allir þátttakendur í vaxtakönnun Innherja eiga von á biðleik hjá peningastefnunefndinni í annað sinn í röð enda séu merki um að hátt vaxtastig sé farið að kæla einkaneysluna og þá muni náttúruhamfarirnar draga mátt úr hagkerfinu á næstu mánuðum og þensla á vinnumarkaði minnka.
Guðmundur Fertram og risasala á Kerecis hlutu viðskiptaverðlaun Þjóðmála
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, var útnefndur viðskiptamaður ársins 2023 á Hátíðarkvöldi Þjóðmála síðastliðinn fimmtudag auk þess sem risasala á fyrirtækinu til alþjóðlega heilbrigðisrisans Coloplast fyrir jafnvirði um 180 milljarða króna var valin viðskipti ársins. Þá hlaut Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar, sérstök heiðursverðlaun Þjóðmála fyrir ævilangt framlag sitt til uppbyggingar íslensks atvinnulífs.
Forstjóri Regins minnkar stöðu sína og tekur á sig tap vegna framvirks samnings
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, hefur minnkað hlutafjáreign sína í fasteignfélaginu um meira en helming en hún hafði verið í gegnum framvirka samninga. Hann segir við Innherja að það hafi verið vandasöm staða samhliða hækkandi vöxtum og lækkunum á mörkuðum og því ákveðið að losa um hana og „innleysa tapið.“
Rafmyntasjóðurinn Viska hækkaði um 29 prósent í október
Gengi Visku rafmyntasjóðs hækkaði verulega í október samhliða miklum hækkunum á Bitcoin, en mörgum öðrum rafmyntum vegnaði ekki eins vel. Um var að ræða besta mánuð sjóðsins frá stofnun hans, þar síðasta sumar. Sjóðurinn hefur tvöfaldast að stærð á innan við ári.
Vægi íslenskra hlutabréfa í eignasöfnum lífeyrissjóða ekki verið lægra í þrjú ár
Hlutfall innlendra hlutabréfa í eignasöfnum lífeyrissjóða hefur fallið stöðugt undanfarin misseri samhliða meðal annars því að verðlækkanir á mörkuðum hér heima hafa verið mun meiri en þekkist erlendis og er vægi þess eignaflokks núna nokkuð undir meðaltali síðasta áratugs. Með auknum umsvifum lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaði á nýjan leik er hlutfall sjóðsfélagalána í eignasöfnum sjóðanna á sama tíma búið að hækka skarpt.
Kría fjárfesti í erlendum vísisjóðum eins og tíðkist í Danmörku og Finnlandi
Kría, sjóður á vegum ríkisins sem fjárfestir í vísisjóðum, ætti horfa til sambærilegra sjóða í Danmörku og Finnlandi sem fjárfesta einnig í erlendum vísisjóðum. Það gæti verið gert með skilyrði um að erlendi vísisjóðurinn fjárfesti einnig á Íslandi. Með því mun Kríu takast að byggja upp tengsl við alþjóðlega samstarfsaðila, segir ráðgjafi sprotafyrirtækja sem aðstoðar þau við erlenda tengslamyndun.
Væntingar um vaxtatoppinn „klárlega að koma niður“ vegna óvissunnar
Jarðhræringar og óvissan um framvindu mála á Reykjanesskaga hafa slökkt í öllum væntingum skuldabréfafjárfesta um mögulega vaxtahækkun þegar peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku. Ávöxtunarkrafa styttri ríkisskuldabréfa hefur lækkað skarpt síðustu daga samtímis því að undirliggjandi raunvextir eru að koma niður, að sögn sjóðstjóra á markaði, en útlit er fyrir að fjármögnunarþörf ríkissjóðs eigi eftir að aukast talsvert frá fyrri áætlun vegna meiri hallareksturs.
Marta Rós Karlsdóttir ráðin framkvæmdastjóri hjá Baseload Power
Marta Rós Karlsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjá Baseload Power á Íslandi. Hún mun gegna lykilhlutverki við þróun jarðvarmaverkefna sem nýta lághita til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni.
Vilja upplýsa markaðinn betur um fasteignaþróunarverkefni Reita
Markaðurinn hefur ekki nógu góða innsýn í umfang þróunareigna Reita. Það er eitt af því sem læra má af samrunaviðræðum við Reginn, segir fjármálastjóri fasteignafélagsins, sem meðal annars á Kringluna og er með í deiliskipulagsferli allt að 418 íbúðir á því svæði.
Krónan hélt áfram að falla þrátt fyrir ítrekuð gjaldeyrisinngrip Seðlabankans
Seðlabankinn beitti umtalsverðum inngripum á gjaldeyrismarkaði í dag til að reyna stemma stigu við mikilli gengisveikingu krónunnar í tengslum við óvissu vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Þetta voru fyrstu inngrip bankans frá því í janúar á þessu ári en þrátt fyrir að hafa selt gjaldeyri fyrir jafnvirði nærri þrjá milljarða þá lækkaði krónan engu að síður um meira en eitt prósent gagnvart helstu myntum.
Heimkaup safnar 1,5 milljarði í hlutafé til að opna nýjar verslanir
Stjórnendur Heimkaupa vinna nú að gerð kynningarefnis til að safna allt að 1,5 milljörðum króna í hlutafjáraukningu til að fjármagna opnun nýrra matvöruverslana. „Við ætlum að koma með látum inn á markaðinn,“ segir forstjóri Heimkaupa, í samtali við Innherja. Allt hlutafé í Brauð & co. var metið á tæplega milljarð króna þegar Heimkaup keypti hlut Skeljar fjárfestingarfélags í bakaríinu í sumar í skiptum fyrir eigin bréf.
Fjárfestar loka framvirkum samningum með krónunni vegna ótta við eldgos
Gengi krónunnar hefur fallið skarpt á síðustu dögum samhliða því að auknar líkur eru nú taldar á eldgosi á Reykjanesskaga sem gæti meðal annars raskað verulega starfsemi stórra ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu. Talsvert hefur verið um að fjárfestar séu að loka framvirkum stöðum sínum með krónunni í þessum mánuði sem hefur ýtt enn frekar undir gengislækkun krónunnar.
Leysti líka til sín bréf Þórðar og fer með nærri tíu prósenta hlut í Eyri Invest
Arion fer með nálægt tíu prósenta eignarhlut í Eyri Invest eftir að bankinn leysti sömuleiðis til sín hluta af bréfum í fjárfestingafélaginu sem höfðu verið í eigu Þórðar Magnússonar, fyrrverandi stjórnarformanns til meira en tveggja áratuga, í tengslum við veðkall sem var gert á Árna Odd, son Þórðar og þáverandi forstjóra Marels. Feðgarnir fara nú saman með nokkuð minna en þriðjungshlut í Eyri en hluthafar félagsins, einkum bankar og lífeyrissjóðir, skoða nú að koma að stórri hlutafjáraukningu til að létta á þungri skuldastöðu.
Lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins hækkar í fyrsta sinn frá 2019
Matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands úr A í A+, sem endurspeglar útlit fyrir áframhaldandi kraftmikinn hagvöxt, en ef opinber fjármál styrkjast meira en nú er áætlað gætu verið forsendur fyrir enn frekari hækkun. Líklegt er að hækkun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs muni í framhaldinu sömuleiðis skila sér í uppfærslu á lánshæfismati íslensku bankanna en S&P gerir ráð fyrir að arðsemi þeirra verði áfram sterk sem geri þá vel í stakk búna til að mæta mögulegum auknum útlánatöpum.
Eyrir áformar að styrkja stöðuna með tólf milljarða innspýtingu frá hluthöfum
Stjórnendur og ráðgjafar Eyris Invest eiga nú í samtölum við hluthafa fjárfestingafélagsins um að leggja því til umtalsvert nýtt hlutafé í því skyni að treysta fjárhagsstöðuna eftir mikið verðfall á stórri hlutabréfaeign þess í Marel. Landsbankinn gerði í lok síðasta mánaðar veðkall í rúmlega eins prósenta hlut Árna Odds Þórðarson, þáverandi forstjóri Marels, í Eyri Invest í gegnum samnefnt eignarhaldsfélag hans eftir að það uppfyllti ekki lengur skilmála í lánasamningi við bankann.
Útlit fyrir að það sé „loksins farið að birta til hjá Marel“
Kaflaskil hafa orðið í rekstri Marels og framlegðarhlutfall fyrirtækisins, sem er samt enn lágt í sögulegu samhengi, virðist loks vera að ná sér á strik eftir „viðstöðulausa lækkun í mörg ár.“ Útlit er fyrir að það sé „loksins að birta til hjá Marel“, segir hlutabréfagreinandi sem hefur hækkað lítillega verðmat sitt á félaginu.
„Of þröng“ viðmið fyrir kauprétti í nýsköpunarfyrirtækjum
Endurskoða þarf skattalega meðferð kauprétta starfsfólks í nýsköpunar- og hugverkafyrirtækjum. Viðmiðin eru of þröng og henta ekki þorra fyrirtækja í hugverkaiðnaði, segir sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins. Danskur stjórnandi vísisjóðs sagði að skynsamleg ráðstöfun kauprétta væri mikilvægur þáttur til að skapa frjóan jarðveg til að sprotafyrirtækið geti blómstrað og orðið að einhyrningum.
Nýr forstjóri með raunhæfari rekstrarmarkmið væri gott skref fyrir Marel
Það gæti verið heilladrjúgt fyrir gengisþróun Marels að fá nýjan forstjóra sem setur rekstrarmarkmið sem félagið getur náð. Við það öðlast aftur fjárfestar trú á félaginu, segir greinandi í samtali við Innherja.
Marel lækkar um sex prósent í Hollandi eftir að Arion leysti til sín bréf Árna Odds
Marel hefur lækkað um ríflega sex prósent í Kauphöllinni í Hollandi í morgun, en um þrjú prósent í íslensku kauphöllinni, eftir að forstjóri fyrirtækisins lét af störfum í kjölfar þess að Arion banki leysti til sín hlutabréf hans í Eyri Invest, kjölfestufjárfesti í Marel.
Opinber sjóðasjóður sem fjárfestir ekki bara í Danmörku breytti miklu
Einn af lykilþáttum þess að efla nýsköpunarumhverfið í Danmörku var að koma á laggirnar opinberum sjóði sem fjárfestir í vísisjóðum sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Sjóðasjóðurinn fjárfestir ekki einungis í dönskum vísisjóðum heldur einnig í alþjóðlegum sjóðum í von um að hluti af fjármagninu muni rata til danskra fyrirtækja, sagði Tommy Andersen, meðstofnandi að danska vísisjóðnum byFounders, en hann hefur veitt dönskum og íslenskum stjórnvöld ráðgjöf um sprotaumhverfið.
Fjárfestar með „augun á baksýnisspeglinum“ og sjá ekki tækifæri Kviku
Fjárfestar eru með „augun á baksýnisspeglinum“ gagnvart Kviku, þar sem þeir horfa framhjá tækifærum til sóknar á bankamarkaði eftir mikla fjárfestingu í fjártæknilausnum, og hratt lækkandi markaðsvirði bankans endurspeglar nú „engan veginn“ undirliggjandi virði í eignum félagsins, að mati vogunarsjóðsstjóra sem hefur byggt upp stöðu í bankanum. Þá segir hann Sýn vera „eitt undirverðlagðasta félagið“ á markaði um þessar mundir og metur mögulegt virði auglýsingamiðla fyrirtækisins á um eða yfir fimm milljarða.
Vísisjóðir á eftir sprotum sem seldir verða fyrir meira en 100 milljónir dala
Fjögur íslensk fyrirtæki, sem eitt sinn voru sprotar, hafa verið seld fyrir meira en 100 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 14 milljarða króna. Vísisjóðir þurfa að selja einhver fyrirtæki í eignasafninu fyrir slíkar fjárhæðir til að ná góðri ávöxtun. Innlendir vísisjóðir eru með rúmlega 140 erlenda meðfjárfesta í fyrirtækjunum sem þeir styðja við, segir stjórnandi vísisjóðs.
Samskipti skráðra félaga við hluthafa: Vandrataður vegur
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi góðra og hreinskiptinna samtala á milli stjórnar félags og hluthafa þess. Slík samtöl hafa á undanförnum árum orðið snar þáttur í eigendastefnum fjárfesta, þá sér í lagi stofnanafjárfesta sem kjósa í auknum mæli að beita sér sem virkir hluthafar, auk þess að gagnast stjórnum félaga við að draga fram og öðlast skilning á sjónarmiðum ólíkra hluthafa.
Lífeyrissjóðir „heppilegir sökudólgar“ en eiga ekki að stöðva lækkanir á markaði
Lífeyrissjóðir eru oft gagnrýndir fyrir framgöngu sína á hlutabréfamarkaði þegar illa árar. Stjórnendur þeirra segja að þeir séu „heppilegir sökudólgar“. Það séu hátt í 100 milljarðar í stýringu hjá verðbréfasjóðum sem ætti að „duga ágætlega“ til skoðanaskipta. Það sé ekki í verkahring lífeyrissjóða að stöðva lækkanir á markaði.
Skoða „ýmsar leiðir“ til að bæta afkomu Kviku af starfseminni í Bretlandi
Erfiðar aðstæður á mörkuðum halda áfram að setja mark sitt á afkomu Kviku og minnkuðu tekjur af kjarnarekstri um liðlega 14 prósent á þriðja fjórðungi en framvirka bókin hjá bankanum er „miklu minni“ en áður sem hefur talsverð neikvæð áhrif á tekjumyndun, að sögn bankastjórans. Framlegðin af starfsemi Ortus í Bretlandi, sem hefur valdið vonbrigðum frá kaupunum í ársbyrjun 2022, ætti að halda áfram að batna með væntingum um hækkandi vaxtamun og verið sé að skoða „ýmsar leiðir“ til að bæta fjármögnunarkostnað félagsins.