Hátíð sem hreyfði við hugmyndum 23. júní 2004 00:01 Gleðilegt er að lesa um það í blöðunum að forseti Íslands skuli nú farinn að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni heimastjórnarafmælisins. Ekki seinna vænna heyrði ég einhven segja. En rétt er þá að muna að nokkur númer eru enn eftir á dagskránni og það stærsta ekki fyrr en í haust. Eftir heimastjórnarafmælið sitja tvö atriði ofarlega í mínum huga - fyrir utan endurminninguna um Hannes Hafstein (lánsamir erum við Íslendingar, fámenn þjóð við ysta haf, að hafa eignast jafn mikilhæfan og glæsilegan stjórnmálaforingja og skáld - það gerist varla nema á svo sem hundrað ára fresti). Í fyrsta lagi minnti afmælið okkur á að hér mun hafa verið svokallað þingræði í heila öld. "Aldarafmæli þingræðisins," sögðu stjórnarherrarnir ábúðarmiklir í febrúar. Það varð til þess að menn fóru að ræða um hugtök og grundvallaratriði stjórnskipunarinnar - að vísu með ægilegum afleiðingum, brauki og bramli - ef allt er skoðað í samhengi (sem þó er ekki endilega nauðsynlegt!). Í ljós kom að menn skilja þingræðið í ólíkum skilningi. Sumir líta á það sem stóra bróður lýðræðisins (sem aftur er kjáninn hún litla systir). Aðrir líta á það sem reglu - mikilvæga grundvallarreglu - en ekki fyrirbæri sem við hæfi sé að tefla fram sem einhvers konar mótherja þjóðarinnar og þjóðarviljans. Hitt atriðið sem afmælið dró fram með upprifjun sinni um Heimastjórnarflokkinn góða er að fyrir hundrað árum var hér allt annars konar flokkakerfi en nú. Enginn núverandi stjórnmálaflokka var þá til. Elsti flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, var stofnaður 1916. Sjálfstæðisflokkurinn 1929. Þetta gæti sagt okkur að flokkakerfið sem við búum við sé ekki endilega eilíft og óumbreytanlegt. Og hefur reyndar breyst frá því það myndaðist, var fyrst þríflokkakerfi á fjórða áratugnum, síðan fjórflokkakerfi í um það bil þrjá áratugi og upp frá því fimmflokka kerfi. Höfundur þessa pistils var á dögunum að taka saman efni um fyrsta forsætisráðherra lýðveldisins, Björn Þórðarson, sem stýrði utanþingstjórninni á árunum 1940 til 1942. Efnið er ætlað í þýðingarmikla bók sem út á að koma 15. september - verði þeim degi ekki frestað. Margt sem rak á fjörur mínar í þeirri vinnu "kallast á" við umræðu okkar daga með forvitnilegum hætti. Þingræði var eitt af því sem menn ræddu þegar Sveinn Björnsson, þá ríkisstjóri, fól fimm embættismönnum að stjórna landinu þegar hann taldi útséð um að stjórnmálaflokkarnir kæmu sér saman um að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Ólafur Thors, Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn töldu að með skipan stjórnarinnar væri freklega gengið gegn þingræðinu. Þegar svo nýsköpunarstjórnin var mynduð haustið 1944 var talað um það sem endurreisn þingræðis. Það er augljóslega eitthvað bogið við þessa hugtakanotkun. Þingræði felur í sér að ríkisstjórn situr á ábyrgð þjóðkjörins þings - annað hvort með beinum stuðningi þess eða hlutleysi - en víkur ella. Þingflokkarnir báru ekki fram vantraust á utanþingsstjórnina heldur virtu hana sem lögmætt stjórnvald. Hún hlýtur því að teljast þingræðisstjórn. Ein spurningin sem ég fékkst við í ritgerðinni var hverjar hefðu verið stjórnmálaskoðanir forsætisráðherrans. Haft hefur verið fyrir satt að hann hafi verið framsóknarmaður og það skýri hvers vegna Framsóknarflokkurinn - einn stjórnmálaflokkanna - var ánægður með utanþingsstjórnina. Jú, það má líklega til sanns vegar færa að Björn hafi fylgt Framsóknarflokknum - en reyndar voru ár og dagar frá því hann hafði skipt sér af stjórnmálum þegar hann varð forsætisráðherra. Hann var fógeti, dómari og sáttasemjari áður en til þess kom. En í viðleitni við að svara spurningunni áttaði ég mig á því að ákveðin söguskekkja var í henni fólgin. Björn Þórðarson var nefnilega kominn á sjötugsaldur þegar utanþingstjórnin var mynduð. Þegar hann var ungur maður með áhuga á þjóðmálum var Heimastjórnarflokkurinn við völd á Íslandi. Þá var sem fyrr segir allt annað flokkakerfi í landinu en við þekkjum núna. Björn, sem var í fimm ár við laganám í Kaupmannahöfn þar sem hann fylgdist náið með straumum og stefnum, taldi sig þá vinstri mann í skilningi þess tíma (sem er annar en nú). Heim kominn gekk hann í lið með Landvarnarflokknum, fyrsta stjórnmálaflokknum sem myndaður er utan þings; til hans er ungmennafélagshreyfingin öðrum þræði rakin. Björn var með öðrum orðum frekar landvarnarmaður en framsóknarmaður. En það heiti er á síðari árum nánast merkingarlaust og því ekki að furða að menn grípi í það sem er nær í tíma. Þegar heimastjórnarafmælinu lýkur í haust verða væntanlega einnig nokkrar breytingar á ásýnd og umhverfi samtímastjórnmála. Kannski leiðir það til þess að menn sem nú tilheyra ólíkum flokkum geta óþægindalaust farið að spjalla saman um markmið og leiðir stjórnmálabaráttunnar á nýrri öld. Ég hef ekki hugmynd um - og enga tillögu - hvað kæmi út úr slíkum samtölum. En það eitt að skilja og viðurkenna að stjórnmálaskipulagið sem við búum við, jafnt flokkakerfi sem leikreglur, er ekki óumbreytanlegt er stórt skref í átt til nýrrar framtíðar. Kannski verður dómur sögunnar sá að heimastjórnarafmælið 2004 hafi með óbeinum hætti valdið kaflaskilum í íslenskum stjórnmálum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun
Gleðilegt er að lesa um það í blöðunum að forseti Íslands skuli nú farinn að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni heimastjórnarafmælisins. Ekki seinna vænna heyrði ég einhven segja. En rétt er þá að muna að nokkur númer eru enn eftir á dagskránni og það stærsta ekki fyrr en í haust. Eftir heimastjórnarafmælið sitja tvö atriði ofarlega í mínum huga - fyrir utan endurminninguna um Hannes Hafstein (lánsamir erum við Íslendingar, fámenn þjóð við ysta haf, að hafa eignast jafn mikilhæfan og glæsilegan stjórnmálaforingja og skáld - það gerist varla nema á svo sem hundrað ára fresti). Í fyrsta lagi minnti afmælið okkur á að hér mun hafa verið svokallað þingræði í heila öld. "Aldarafmæli þingræðisins," sögðu stjórnarherrarnir ábúðarmiklir í febrúar. Það varð til þess að menn fóru að ræða um hugtök og grundvallaratriði stjórnskipunarinnar - að vísu með ægilegum afleiðingum, brauki og bramli - ef allt er skoðað í samhengi (sem þó er ekki endilega nauðsynlegt!). Í ljós kom að menn skilja þingræðið í ólíkum skilningi. Sumir líta á það sem stóra bróður lýðræðisins (sem aftur er kjáninn hún litla systir). Aðrir líta á það sem reglu - mikilvæga grundvallarreglu - en ekki fyrirbæri sem við hæfi sé að tefla fram sem einhvers konar mótherja þjóðarinnar og þjóðarviljans. Hitt atriðið sem afmælið dró fram með upprifjun sinni um Heimastjórnarflokkinn góða er að fyrir hundrað árum var hér allt annars konar flokkakerfi en nú. Enginn núverandi stjórnmálaflokka var þá til. Elsti flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, var stofnaður 1916. Sjálfstæðisflokkurinn 1929. Þetta gæti sagt okkur að flokkakerfið sem við búum við sé ekki endilega eilíft og óumbreytanlegt. Og hefur reyndar breyst frá því það myndaðist, var fyrst þríflokkakerfi á fjórða áratugnum, síðan fjórflokkakerfi í um það bil þrjá áratugi og upp frá því fimmflokka kerfi. Höfundur þessa pistils var á dögunum að taka saman efni um fyrsta forsætisráðherra lýðveldisins, Björn Þórðarson, sem stýrði utanþingstjórninni á árunum 1940 til 1942. Efnið er ætlað í þýðingarmikla bók sem út á að koma 15. september - verði þeim degi ekki frestað. Margt sem rak á fjörur mínar í þeirri vinnu "kallast á" við umræðu okkar daga með forvitnilegum hætti. Þingræði var eitt af því sem menn ræddu þegar Sveinn Björnsson, þá ríkisstjóri, fól fimm embættismönnum að stjórna landinu þegar hann taldi útséð um að stjórnmálaflokkarnir kæmu sér saman um að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Ólafur Thors, Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn töldu að með skipan stjórnarinnar væri freklega gengið gegn þingræðinu. Þegar svo nýsköpunarstjórnin var mynduð haustið 1944 var talað um það sem endurreisn þingræðis. Það er augljóslega eitthvað bogið við þessa hugtakanotkun. Þingræði felur í sér að ríkisstjórn situr á ábyrgð þjóðkjörins þings - annað hvort með beinum stuðningi þess eða hlutleysi - en víkur ella. Þingflokkarnir báru ekki fram vantraust á utanþingsstjórnina heldur virtu hana sem lögmætt stjórnvald. Hún hlýtur því að teljast þingræðisstjórn. Ein spurningin sem ég fékkst við í ritgerðinni var hverjar hefðu verið stjórnmálaskoðanir forsætisráðherrans. Haft hefur verið fyrir satt að hann hafi verið framsóknarmaður og það skýri hvers vegna Framsóknarflokkurinn - einn stjórnmálaflokkanna - var ánægður með utanþingsstjórnina. Jú, það má líklega til sanns vegar færa að Björn hafi fylgt Framsóknarflokknum - en reyndar voru ár og dagar frá því hann hafði skipt sér af stjórnmálum þegar hann varð forsætisráðherra. Hann var fógeti, dómari og sáttasemjari áður en til þess kom. En í viðleitni við að svara spurningunni áttaði ég mig á því að ákveðin söguskekkja var í henni fólgin. Björn Þórðarson var nefnilega kominn á sjötugsaldur þegar utanþingstjórnin var mynduð. Þegar hann var ungur maður með áhuga á þjóðmálum var Heimastjórnarflokkurinn við völd á Íslandi. Þá var sem fyrr segir allt annað flokkakerfi í landinu en við þekkjum núna. Björn, sem var í fimm ár við laganám í Kaupmannahöfn þar sem hann fylgdist náið með straumum og stefnum, taldi sig þá vinstri mann í skilningi þess tíma (sem er annar en nú). Heim kominn gekk hann í lið með Landvarnarflokknum, fyrsta stjórnmálaflokknum sem myndaður er utan þings; til hans er ungmennafélagshreyfingin öðrum þræði rakin. Björn var með öðrum orðum frekar landvarnarmaður en framsóknarmaður. En það heiti er á síðari árum nánast merkingarlaust og því ekki að furða að menn grípi í það sem er nær í tíma. Þegar heimastjórnarafmælinu lýkur í haust verða væntanlega einnig nokkrar breytingar á ásýnd og umhverfi samtímastjórnmála. Kannski leiðir það til þess að menn sem nú tilheyra ólíkum flokkum geta óþægindalaust farið að spjalla saman um markmið og leiðir stjórnmálabaráttunnar á nýrri öld. Ég hef ekki hugmynd um - og enga tillögu - hvað kæmi út úr slíkum samtölum. En það eitt að skilja og viðurkenna að stjórnmálaskipulagið sem við búum við, jafnt flokkakerfi sem leikreglur, er ekki óumbreytanlegt er stórt skref í átt til nýrrar framtíðar. Kannski verður dómur sögunnar sá að heimastjórnarafmælið 2004 hafi með óbeinum hætti valdið kaflaskilum í íslenskum stjórnmálum.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun