Lífið

Potturinn og pannan

Franski pottaframleiðandinn Le Creuset hefur í hartnær hundrað ár notast við aldagamlar aðferðir við framleiðslu potta og panna úr pottjárni. "Þessar pönnur og pottar endast margar kynslóðir," segir Birgir E. Birgisson, kaupmaður í Búsáhöldum í Kringlunni þar sem Le Creuset pottarnir fást, og tekur sem dæmi að bæði Síldarminjasafnið á Siglufirði og Árbæjarsafn eigi í fórum sínum Le Creuset potta sem hafa verið í notkun hér á Íslandi frá því snemma á síðustu öld. "Það eru endingagildið og gæðin sem hafa gert það að verkum að þessum pottum var áður best treyst til þess að taka við hlutverki kleinupottsins á íslenskum heimilum." Í Frakklandi hafa pottar sem þessir verið til á velflestum heimilum og vegna sinna sérstöku eiginleika má segja að þeir séu ein af undirstöðunum í margrómaðri matargerðarhefð Frakka. Þeir eru emileraðir að innan og þess vegna má meðal annars marinera í þeim. Það er hægt að taka þá af eldavélarhellunni og setja í heitan ofninn og þaðan beint á matarborðið. Vegna þykktar sinnar halda þeir vel hita þannig að maturinn kólnar ekki meðan á máltíð stendur, og svo eru þeir líka mjög litríkir og fallegir og sóma sér mjög vel á borði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×