Lífið

Mokkastell frá Kristianíu

Heru Björk Þórhallsdóttur söngkonu áskotnaðist uppáhaldsstellið sitt á markaði í Kristjaníu. "Ég var á gangi með Gísla vini mínum um Kristjaníu og við vorum bara að skoða hvað var á borðstólum. Þá sá ég lítið mokkastell á einum básnum, bara sá það og andaðist á staðnum. Ég sagði við Gísla að ef þetta kostaði innan við tíu þúsundkall þá myndi ég kaupa það, sama hvað hver segði. Hann sagði að ég væri geðveik en það er nú ekkert nýtt. Svo spurði ég sölumanninn með öndina í hálsinum hvað stellið kostaði og þegar hann sagði fimmhundruð danskar, sem er eitthvað rúmlega fimmþúsund kall varð ég svo glöð að ég prúttaði ekki neitt, heldur reiddi fram féð umsvifalaust, " segir Hera og er ánægð með röggsemina. "Þetta er lítið mokkastell, kaffikanna,sykurkar og mjólkurkanna, og örlitlir bollar úr næfurþunnu postulíni. Það lítur út fyrir að vera frá viktoríutímabilinu og er svo fínt að ég tími aldrei að nota það. Ég held að það hafði gerst tvisvar að ég bauð upp á kaffi í þessu stelli af alveg sérstöku tilefni og ég var á taugum allan tímann. Þetta er það eina sem ég á heima hjá mér sem er bara upp á punt, annars er ég mjög mikið fyrir nytjahluti, " segir Hera og fellst náðarsamlegast á að taka stellið fram fyrir ljósmyndarann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×