Við Chuck 22. júlí 2004 00:01 Elzta hótel í heimi, segja Spánverjar, það er í Santiago de Compostela, sem er þekkilegur bær nálægt norðvesturhorni Spánar, en það er að vísu ekki alveg rétt hjá þeim, því að elzta hótelið skv. heimsmetabók Guinness er í Japan og heitir Hoshi Ryokan og hefur verið í svo að segja samfelldum rekstri síðan laust eftir aldamótin 700, nánar tiltekið 717, og segir ekki frekar af því hér. En Hostal dos Reyes Catholicos á Spáni er ekki lakara fyrir því. Þarna áttu pílagrímar víst athvarf allar götur frá 15. öld, þetta var líka spítali, og ennþá sækja pílagrímar hælið heim, sumir gangandi eins og í gamla daga jafnvel alla leið frá París, aðrir hjóla, enn aðrir aka Harley-Davidson með drunum. Þetta er afbragðshótel: þarna heyrist niður aldanna, eins og sagt hefur verið um Menntaskólann í Reykjavík, svo að áhöld hafa verið um, hvort hægt sé að halda sögupróf á Sal. Nema hvern sé ég, þegar ég geng til morgunverðar míns þarna í Santiago einn sólbjartan sumardag fyrir fáeinum árum? Engan annan en Charlton Heston. Hann sat - yes, með drunum - í djúpum hægindastól í viðhafnarsal hótelsins mikill að sjá á brún og brá og var að skoða Skyttur og skotvopn eða eitthvað af því tagi, og þegar ég birtist, blásaklaus, þá stóð hann á fætur til að heilsa, ekki mér að vísu, heldur öðrum manni. Og þá komst ég ekki hjá að taka eftir því, að stórleikarinn - sjálfur Ben Húr! - náði mér varla nema ca. í öxl. Ég held hann geti varla verið meira en svona einn og sextíu, nema hann hafi óvart stigið ofan í djúpa holu gegnum þykkt teppið þarna á miðju gólfinu og það hafi einhvern veginn farið fram hjá mér. Þetta vakti athygli mína, því skv. opinberum gögnum er maðurinn einn og níutíu. Ég bar þessa lífsreynslusögu frá Santiago de Compostela undir vini mína í kvikmyndabransanum. Þeim kom málið ekki á óvart, öðru nær. Þeir sögðu mér, að sumar skærustu karlstjörnur kvikmyndanna séu lágar vexti og verði að vera það af rúmfræðilegum ástæðum og fagurfræðilegum: þá samsvara þeir sér betur á bíótjaldinu. Svo er mér sagt. Þarna er hún þá lifandi komin skýringin á því, hvers vegna fætur sjarmöranna sjást yfirleitt ekki, þegar þeir kreista draumadísirnar í bíómyndunum: þeir þurfa að standa uppi á kassa til að ná. Þannig er Mel Gibson ekki nema 173 cm á hæð, Humphrey Bogart var 174, Marlon Brando 175 eins og James Dean, og þannig gæti ég haldið áfram of daginn. Kannski voru þeir enn lægri í loftinu, en töldu sig ekki geta komizt upp með að gefa upp hærri tölur en þetta. Sumir kvikmyndaleikarar virðast ekki víla það fyrir sér að villa á sér heimildir eins og Chuck - eins og við vinir hans köllum hann - Heston. Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, er t.d. 188 cm á hæð skv. handbærum gögnum, en Washington Post segir þó, að hann sé í rauninni ekki nema 178. Robert Redford er sagður vera 178, en ég hef það fyrir satt eftir sjónarvotti, að Redford sé mun lægri í loftinu en svo. Dustin Hoffman hefur aldrei reynt að leyna því, að hann er bara 166. Mig rekur ekki minni til þess, að Redford beri höfuð og herðar yfir Hoffman í All the President’s Men (1976); kannski hvorugur þeirra hafi náð nema rétt upp fyrir skrifborðsbrúnina inni hjá Ben Bradley, ritstjóranum. Bandarískt fyrirtæki, sem selur háhælaða karlmannaskó með þverhandarþykkum sólum, kennir sig við Robert Redford og ber því við, að allir hljóti að vilja vera 178 eins og hann (og ég). Anthony Hopkins er 170. Charlton Heston hefur leikið í yfir hundrað kvikmyndum og verið giftur sömu konunni í fimmtíu ár. Hann hóf ferilinn á því að leika titilhlutverkið í Pétri Gaut. Já, ég er að tala um Ibsen, Henrik Ibsen; þetta var þögul mynd (1941). Á okkar dögum er Heston þó trúlega þekktari fyrir Boðorðin tíu (1956) og Ben Húr (1959), að ógleymdri Apaplánetunnni (1968) o.fl. myndum. Hann hefur komið víða við og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og var lengi forseti bandaríska byssuvinafélagsins (vígorð: byssur drepa ekki, fólk drepur), en hann er nýhættur þar eftir langa þjónustu. Ég sé hann ennþá fyrir mér, þar sem hann stendur þaninn í lokuðum ræðustól og ávarpar byssubræður sína á fundum: hann hlýtur að hafa staðið uppi á stól inni í stólnum. George W. Bush sæmdi hann Frelsisorðu forsetans í fyrra. Nú má enginn skilja orð mín svo, að mér sé í mun að gera lítið úr lágvöxnu fólki. Svo er alls ekki. Miklir menn eru sumir lágir í loftinu, og öfugt. Mikilúðlegt höfuð séra Matthíasar Jochumssonar, svo sem það hefur varðveitzt t.d. í fagurri brjóstmynd Ríkharðs Jónssonar af Matthíasi og stendur í Þjóðleikhúsinu, veitir stórfenglegt hugboð um stóran mann. Þeir, sem hafa reynt að fara í fötin hans - þau hanga sum til sýnis í Sigurhæðum á Akureyri - vita þó fyrir víst, að séra Matthías var lágvaxinn. En hann var ekki minni maður fyrir því. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Elzta hótel í heimi, segja Spánverjar, það er í Santiago de Compostela, sem er þekkilegur bær nálægt norðvesturhorni Spánar, en það er að vísu ekki alveg rétt hjá þeim, því að elzta hótelið skv. heimsmetabók Guinness er í Japan og heitir Hoshi Ryokan og hefur verið í svo að segja samfelldum rekstri síðan laust eftir aldamótin 700, nánar tiltekið 717, og segir ekki frekar af því hér. En Hostal dos Reyes Catholicos á Spáni er ekki lakara fyrir því. Þarna áttu pílagrímar víst athvarf allar götur frá 15. öld, þetta var líka spítali, og ennþá sækja pílagrímar hælið heim, sumir gangandi eins og í gamla daga jafnvel alla leið frá París, aðrir hjóla, enn aðrir aka Harley-Davidson með drunum. Þetta er afbragðshótel: þarna heyrist niður aldanna, eins og sagt hefur verið um Menntaskólann í Reykjavík, svo að áhöld hafa verið um, hvort hægt sé að halda sögupróf á Sal. Nema hvern sé ég, þegar ég geng til morgunverðar míns þarna í Santiago einn sólbjartan sumardag fyrir fáeinum árum? Engan annan en Charlton Heston. Hann sat - yes, með drunum - í djúpum hægindastól í viðhafnarsal hótelsins mikill að sjá á brún og brá og var að skoða Skyttur og skotvopn eða eitthvað af því tagi, og þegar ég birtist, blásaklaus, þá stóð hann á fætur til að heilsa, ekki mér að vísu, heldur öðrum manni. Og þá komst ég ekki hjá að taka eftir því, að stórleikarinn - sjálfur Ben Húr! - náði mér varla nema ca. í öxl. Ég held hann geti varla verið meira en svona einn og sextíu, nema hann hafi óvart stigið ofan í djúpa holu gegnum þykkt teppið þarna á miðju gólfinu og það hafi einhvern veginn farið fram hjá mér. Þetta vakti athygli mína, því skv. opinberum gögnum er maðurinn einn og níutíu. Ég bar þessa lífsreynslusögu frá Santiago de Compostela undir vini mína í kvikmyndabransanum. Þeim kom málið ekki á óvart, öðru nær. Þeir sögðu mér, að sumar skærustu karlstjörnur kvikmyndanna séu lágar vexti og verði að vera það af rúmfræðilegum ástæðum og fagurfræðilegum: þá samsvara þeir sér betur á bíótjaldinu. Svo er mér sagt. Þarna er hún þá lifandi komin skýringin á því, hvers vegna fætur sjarmöranna sjást yfirleitt ekki, þegar þeir kreista draumadísirnar í bíómyndunum: þeir þurfa að standa uppi á kassa til að ná. Þannig er Mel Gibson ekki nema 173 cm á hæð, Humphrey Bogart var 174, Marlon Brando 175 eins og James Dean, og þannig gæti ég haldið áfram of daginn. Kannski voru þeir enn lægri í loftinu, en töldu sig ekki geta komizt upp með að gefa upp hærri tölur en þetta. Sumir kvikmyndaleikarar virðast ekki víla það fyrir sér að villa á sér heimildir eins og Chuck - eins og við vinir hans köllum hann - Heston. Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, er t.d. 188 cm á hæð skv. handbærum gögnum, en Washington Post segir þó, að hann sé í rauninni ekki nema 178. Robert Redford er sagður vera 178, en ég hef það fyrir satt eftir sjónarvotti, að Redford sé mun lægri í loftinu en svo. Dustin Hoffman hefur aldrei reynt að leyna því, að hann er bara 166. Mig rekur ekki minni til þess, að Redford beri höfuð og herðar yfir Hoffman í All the President’s Men (1976); kannski hvorugur þeirra hafi náð nema rétt upp fyrir skrifborðsbrúnina inni hjá Ben Bradley, ritstjóranum. Bandarískt fyrirtæki, sem selur háhælaða karlmannaskó með þverhandarþykkum sólum, kennir sig við Robert Redford og ber því við, að allir hljóti að vilja vera 178 eins og hann (og ég). Anthony Hopkins er 170. Charlton Heston hefur leikið í yfir hundrað kvikmyndum og verið giftur sömu konunni í fimmtíu ár. Hann hóf ferilinn á því að leika titilhlutverkið í Pétri Gaut. Já, ég er að tala um Ibsen, Henrik Ibsen; þetta var þögul mynd (1941). Á okkar dögum er Heston þó trúlega þekktari fyrir Boðorðin tíu (1956) og Ben Húr (1959), að ógleymdri Apaplánetunnni (1968) o.fl. myndum. Hann hefur komið víða við og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og var lengi forseti bandaríska byssuvinafélagsins (vígorð: byssur drepa ekki, fólk drepur), en hann er nýhættur þar eftir langa þjónustu. Ég sé hann ennþá fyrir mér, þar sem hann stendur þaninn í lokuðum ræðustól og ávarpar byssubræður sína á fundum: hann hlýtur að hafa staðið uppi á stól inni í stólnum. George W. Bush sæmdi hann Frelsisorðu forsetans í fyrra. Nú má enginn skilja orð mín svo, að mér sé í mun að gera lítið úr lágvöxnu fólki. Svo er alls ekki. Miklir menn eru sumir lágir í loftinu, og öfugt. Mikilúðlegt höfuð séra Matthíasar Jochumssonar, svo sem það hefur varðveitzt t.d. í fagurri brjóstmynd Ríkharðs Jónssonar af Matthíasi og stendur í Þjóðleikhúsinu, veitir stórfenglegt hugboð um stóran mann. Þeir, sem hafa reynt að fara í fötin hans - þau hanga sum til sýnis í Sigurhæðum á Akureyri - vita þó fyrir víst, að séra Matthías var lágvaxinn. En hann var ekki minni maður fyrir því.