Menning

Humar í sérstöku uppáhaldi

Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu, finnst gaman að elda góðan mat og eru sjávarréttir í sérstöku uppáhaldi hjá henni. "Uppáhaldsmaturinn minn er að sjálfsögðu humar. Ég matreiði hann þannig að ég sker hann endilangan, fletti út og set á hann mikið af hvítlauks- og paprikusalti. Síðan snöggsteiki ég hann upp úr smjöri og helli síðan hvítvíni yfir hann og pínu rjóma. Þetta ber ég fram með ristuðu brauði og finnst mér þetta mikið lostæti," segir Elva Ósk. Léttsteiktar nautalundir með sveppum eru einnig í uppáhaldi hjá henni. "Þær matreiði ég á mjög einfaldan máta, bara snöggsteiki á pönnu og ber fram með sveppum og madeirasósu," segir hún. Elva Ósk segist líka vera mjög gamaldags hvað matarsmekk varðar. "Mér finnst þjóðlegur matur eins og svið, slátur og allur innmatur mjög góður matur og er ég alveg sólgin í hann," segir hún. Hún segist ekki vera nógu dugleg að bjóða fólki í mat þó henni finnist það mjög gaman. "Mér þykir ekkert sérstaklega gaman að elda venjulegan heimilismat en finnst mjög gaman að gera veislumat og bjóða þá fólki heim til að borða hann með mér. Ég geri bara alltof lítið af því," segir Elva Ósk.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×