Innlent

Ekki enn boðað til sumarfunda

Þingflokkar stjórnarflokkanna hafa enn ekki verið boðaðir til árlegs sumarfundar, þar sem meginlínur fjárlagagerðar hafa jafnan verið kynntar. Það hefur verið fastur liður síðla sumars að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur kölluðu þingflokka sína til fundar til að undirbúa haustþing. Hafa fundir þessir jafnan verið haldnir um eða eftir miðjan ágústmánuð eða í byrjun septembermánaðar og gjarnan utan Reykjavíkur. Þar hefur ríkisstjórnin kynnt þingliði sínu stöðu fjárlagagerðar auk þess sem önnur mikilvæg mál hafa verið rædd. Fundir þessir hafa oft þótt þýðingarmiklir því þar hafa stjórnarflokkarnir mótað helstu atriði ríkisfjármála og efnahagsstefnunnar fyrir næsta ár. Að þessu sinni má búast við að skattkerfisbreytingar muni bera hæst, það er hvernig stjórnarflokkarnir hyggjast efna kosningaloforð um skattalækkanir. Þá má búast við að mannabreytingar í ráðherraliði verði til umræðu og jafnvel afgreiddar. Tvær skýringar eru gefnar á því hversvegna ekki sé enn búið að boða þingflokksfundina, annarsvegar veikindi forsætisráðherra og hinsvegar sumarþing, sem varð til þess þingmenn seinkuðu sumarleyfum. Nú berast hins vegar þær fréttir úr herbúðum beggja flokka að farið sé að huga að fundarboði. Þannig er hugsanlegt að þingmenn Framsóknarflokks fundi í lok þessarar viku og innan Sjálfstæðisflokks stefna menn að þingflokksfundi fyrir lok mánaðarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×