Innlent

Dagný Jónsdóttir ekki sammála

Ekki eru allar framsóknarkonur sammála aðferðum hóps kvenna sem birtu í dag heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu. Þar skora þær á þingflokk Framsóknarflokksins um að virða lög flokksins um jafnrétti. Þetta gera þær vegna þeirrar umræðu að Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, muni láta af embætti þegar formaður flokksins tekur við forsætisráðuneytinu í september. Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lýsir yfir reiði vegna þessa máls á bloggsíðu sinni. Hún segist lengi hafa setið þegjandi undir umræðu um stöðu kvenna innan Framsóknarflokksins og hafi ekki viljað tjá sig um málið þar sem það tengdist ráðherravalinu sem væri framundan. Hún segir á síðu sinni að sér sé misboðið að í fréttum gærkvöldsins væri látið í það skína að allar framsóknarkonur í landinu væru reiðar formanni og forystu flokksins vegna ráðherrakapalsins og þeirra breytinga sem væntanlegar eru á ríkisstjórninni nú í haust. Það sé á hreinu að ekki séu allar konur flokksins reiðar og hafi hún fengið fjölda símtala frá konum þess efnis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×