Innlent

Guðni vildi ekki víkja Siv

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir þá ákvörðun þingflokksins að Siv Friðleifsdóttir skyldi víkja úr ríkisstjórn hafa valdið mikilli ólgu innan flokksins. Hann leggur áherslu á að þetta hafi ekki verið sú leið sem hann vildi fara. Siv Friðleifsdóttir var ekki valin til áframhaldandi setu í ríkisstjórninni á fundi þingflokks Framsóknarflokksins á fimmtudaginn. Sú ákvörðun að hún skyldi vera látin víkja fimmtánda september í skiptum fyrir forsætisráðuneytið hefur valdið reiði meðal margra Framsóknarmanna. Flestar konur telja að það sé gengið fram hjá hæfri konu og ýmsir segja að völdin í flokknum séu að færast á hendur fárra einkavina Halldórs Ásgrímssonar. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, er ósáttur við að gagnrýni sé sögð beinast gegn flokksforystunni því Siv sé hluti af henni. Hún sé ritari flokksins og sitji því í forystunni ásamt Guðna og Halldóri. Hann segir málið snúast um það að Halldór hafi lagt fram tillögu um að Siv skyldi víkja, eftir að hann hafi rætt við alla þingmenn flokksins. Guðni segir tillöguna svo hafa verið samþykkta eins og alltaf í þessum efnum. Guðni segir hin hörðu viðbrögð við brottvikningu Sivjar ekki hafa komið sér á óvart vegna hinnar sterku jafnréttisáætlunar flokksins. Hann segir Siv ungan og glæsilegan ráðherra sem hafi staðið sig vel og því séu miklar tilfinningar í málinu. Aðspurður hvort hann sé á því að ákvörðunin um að víkja Siv úr ríkisstjórninni hafi verið rétt segir Guðni að þurft hafi að leita að niðurstöðu sem ekki væri aðeins til að sætta þingflokkinn, heldur gæti gengið í flokkinn allan sem sáttatillaga. Því miður hafi það ekki verið raunin og því mikilvægt að leita nú leiða til sátta. Spurður hvort hann sé þar með að segja að ekki hafi verið rétt að víkja Siv úr ríkisstjórninni segist Guðni fyrst og fremst vera að segja að tillagan hafi ekki verið hans. Hún hafi komið frá Halldóri Ásgrímssyni og óþekkt sé annað en að stuðningur sé við tillögu formannsins. Hann segir að hins vegar hefði  ennfremur þurft að leita tillögu sem flokksheildin væri sátt við. Aðspurður hvort hann hafi stutt tillögu formannsins segir Guðni svo vera.        Sú kenning hefur verið viðruð opinberlega að Árni Magnússon félagsmálaráðherra, sem búsettur er í Hveragerði, hafi augastað á fyrsta sæti lista flokksins í Suðurkjördæmi og jafnvel varaformannsembættinu. Guðni Ágústsson leiðir sem kunnugt er lista Framsóknar í Suðurkjördæmi og hann er líka varaformaður flokksins. Hann segist ekki telja neinar líkur á því að Árni ætli í „heilagt stríð“ við sig. Þeir séu samherjar í flokknum og það megi segja að félagsmálaráðherra hafi upphaflega komið inn í stjórnmál fyrir tilstilli Guðna. Aðspurður hvort honum finnist að sín staða innan Framsóknarflokksins hafi veikst eftir að ákvörðunin um brottvikningu Sivjar hafi verið tekin segist Guðni ekki telja það. Allar skoðanakannanir frá því hann varð varaformaður og ráðherra hafi sýnt að staða hans sé mjög sterk. Að sögn Guðna er mikil ólga innan flokksins og nú sé því tímabært að setjast niður, marka skýra áætlun til framtíðar og hlusta á allar raddir innan Framsóknarflokksins. Spurður hvort hann hafi lagt fram aðra tillögu en að víkja Siv úr ríkissstjórn, meðal annars til að koma hugsanlega í veg fyrir nefnda ólgu, segist Guðni hafa átt trúnaðarsamtal við Halldór Ásgrímsson en hann vildi ekki gefa upp hvað þeim fór á milli.      



Fleiri fréttir

Sjá meira


×