Menning

Rope Yoga

"Fyrir þá sem vilja verða orkuríkir og hafa hreinan ásetning þá er þetta tækið," segir Guðni Gunnarsson um Rope yoga tækið sem hann hefur þróað og hannað og úr því hefur sprottið ný tegund af líkamsrækt sem hann segir vera heildræna heilsu- og hugrækt. "Rope yoga kom til vegna þess að það vantaði á markaðinn kerfi eða verkfæri til að öðlast jafnvægi út frá miðju. Með tilkomu þess hefur fólk aðgang að vöðvum og kviðvöðvum sem hafa verið óaðgengilegir til þessa," segir Guðni og leggur áherslu á það að þetta snúist þó ekki bara um að fá sterka magavöðva. "Þó að flestir geta virkjað eitthvað af kviðvöðvunum þá er mikilvægt að hætta þessu ofbeldi sem fólk býr við gagnvart sjálfum sér. Rope yoga gengur út á kærleika og umhyggju og að sýna sér alúð og hvatningu en ekki offors og ofbeldi. En fyrst og fremst gengur þetta út á að vera fullkominn," segir Guðni og brosir því hann segir marga staldra við þá fullyrðingu hans. "Að vera fullkominn er að vera fullkomlega til staðar á augnablikinu, eins og orðið segir sjálft til um að vera full kominn á staðinn. Þannig býður Rope yoga upp á heildræna aðferð til að hvetja líkamann að vera á staðnum." Hann segir að í Rope yoga sé unnið með sjö stig þar sem einstaklingur nái andlegum þroska til jafns við líkamlegan. Sjöunda og síðasta stigið er þakklæti þar sem við löðum að okkur velgengni. "Rope yoga gengur út á að lifa við velmegun og kyrrð og það gerist við ástand þakklætis, þegar maður er þakklátur þá er enginn skortur í manns tilvist. Þakklæti upplifir maður tilfinningalega í hjartanu," segir Guðni en til þess að átta sig algerlega á lokastiginu þarf maður að fara í gegnum fyrri stig sem hefjast á vakningu. "Maður þarf að vakna til vitundar og sú vakning á sér stað við brölt eða þjáningu sem veldur því að maður vaknar til vitundar. Þegar það hefur átt sér stað þá er hægt að komast yfir á næsta stig," segir Guðni. Kennarar í Rope yoga eru allir sérþjálfaðir og hefur Guðni leiðbeint og útskrifað nokkra tugi kennara hérlendis. Hann segir Íslendinga hafa tekið þessu fagnandi og árangurinn vera eftir því. "Það má segja að þetta hafi gengið mjög vel hérna," segir Guðni sem er að vonum ánægður með árangurinn þar sem Rope yoga hefur verið í um 25 ára þróun hjá honum frá því að hann var fyrsti líkamsræktarkennarinn á Íslandi. "Ég tók eftir því að flest líkamsrækt snýst um að rækta tvístringinn en ekki eininguna, í rope yoga er því öfugt farið," segir Guðni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×