Menning

Vatn og samba

"Ég kenni fyrst og fremst dansleikfimi og notast mest við sambahreyfingar," segir Harpa Helgadóttir sjúkraþjálfari sem kennir sambaleikfimi hjá Hreyfigreiningu og er að byrja að kenna bakleikfimi í vatni á Endurhæfingastöðinni við Grensás. Hennar sérgrein er manual therapy sem er sérhæfing í greiningu og meðferð á hrygg- og útlimaliðum og hún er nú í doktorsnámi við Háskóla Íslands í samvinnu við háskóla í Flórída. "Í vatninu er maður léttari. Þar sem þungi er tekinn af líkamanum og hægt er að nota mótstöðu frá vatninu við æfingar. Sá misskilningur er algengur að ekkert gerist í vatninu en hægt er að stjórna álaginu á líkamann í vatni," segir Harpa. Vatnið er sérstaklega gott fyrir þá sem eru mjög slæmir í baki því þeir eiga auðveldara með að hreyfa sig. "Það sem skiptir máli er að temja sér rétt hreyfimynstur sem dregur úr álaginu á hrygginn og stuðlar að réttri vöðvavinnu, réttri beitingu og réttu álagi. Í vatninu gerum við æfingar undir tónlist sem er bæði til að örva blóðstreymi, mýkja upp vöðvana og styrkja og liðka líkamann. Ég kenni fólki hagstætt stöðu- og hreyfimynstur sem fólk þarf að yfirfæra í hið daglega líf," segir Harpa og hlær bara þegar hún er spurð hvort það þýði að nemendur hennar taki sambaspor í tíma og ótíma. "Sambahreyfingar eru mjög góðar til að liðka upp stífa vöðva og eru þetta mjúkar danshreyfingar sem eru mjög skemmtilegar," segir Harpa sem hefur kennt dansleikfimina í ein 15 ár og er með dyggan hóp fólks sem sækir tímana til hennar ár hvert. Hún segir þó meirihluta þeirra vera konur en það slæðast með einstaka karlmenn sem hafa gaman af því að dansa. Háls- og bakvandamál eru reyndar mun algengari hjá konum en körlum sem hafi sitt að segja. Að mati Hörpu er dansinn dásamlegur til að takast á við þessi vandamál jafnt í danstímum sem í vatninu. "Í vatnsleikfiminni notast ég við samba. Það er kannski ekki eins auðvelt að dansa í vatninu en undir suðrænni seiðandi tónlist er allt hægt."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×