Menning

Tryllitæki vikunnar er Kappakstursþruman

Tryllitæki vikunnar er 2004 árgerðin af Aprilia Tuonon Racing eða Kappakstursþruman. Þessi hjól voru smíðuð í þeim tilgangi að gera þau lögleg í keppni og því er þetta hjól með mun meiri búnaði en hefðbundin hjól. Til að hjólið sé löggilt í keppni þarf það að vera framleitt fyrir almennan markað. Hjólið er númer 38 í framleiðslulínunni en hjólin eru framleidd eftir eftirspurn. Þetta hjól er töluvert dýrara en Standard útgáfan og kostar 2.252.000 kr. Eigandinn, Unnar Már Magnússon, flytur inn Apriliahjól á Íslandi og langaði að eiga sérstakt og öðruvísi hjól svo hann fjárfesti í þessu. Allt plast á hjólinu er úr koltrefjum (carbon fiber) og því fylgir auka hlífasett fyrir keppnir, auka pústkerfi og tölvukubbur fyrir innspýtingu og ýmsilegt annað til að gera það keppnishæft. Aukahlífasettið er án ljósa svo það er bara hægt að hafa það í keppni og neðri hlífin er svo stór að það er ekki pláss fyrir standara. Hjólið er 130 hestöfl, 175 kg og 1000 cc. Það er búið Öhlins fjöðrunarkerfi og felgurnar eru OZ racing. Það er ólíkt öðrum hjólum að því að leyti það er með motocross stýri svo ásetan er mjög upprétt sem gerir það tilvalið í allskonar áhættuakstur og sýningar. Þessi hjól eiga heimsmetið í því að vera bara á framdekkinu (öfugt prjón), 255 metra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×