Innlent

Skammarlegt fyrir ríkisstjórnina

Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður segir skammarlegt ef ríkisstjórnin ætli að láta öryrkja draga sig í fjórða sinn fyrir dómstóla vegna vanefnda á samningum. Hún segir málið prófraun fyrir framsóknarmenn þegar Halldór Ásgrímsson tekur við stjórnartaumunum. Forsætisráðherra lýsti því yfir í gær að ekki væri gert ráð fyrir frekari framlögum til öryrkja vegna samnings stjórnvalda við þá fyrir síðustu alþingiskosningar. Hann sagðist líta svo á að samkomulagið væri að fullu efnt. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagðist í dag ekki ætla að ræða þessi ummæli forsætisráðherra enda liti hann svo á að hann væri bundinn trúnaði um fjárlagafrumvarpið. Hann sagði þó að fjallað væri um málefni öryrkja með margvíslegum hætti í fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalögum. Formaður Öryrkjabandalagsins hefur lýst því yfir að ef ekki sé gert ráð fyrir fullum efndum á fjárlögum verði því svarað með málsókn. Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður spyr sig hvort sjálfstæðismenn muni áfram ráða ferðinni í öllum málum eftir að Halldór Ásgrímsson tekur við forsætisráðuneytinu. Hún kveðst ekki trúa því fyrr en á reyni að ráðherrarnir ætli að leggjast svo lágt að svíkja þetta kosningaloforð. Hún segir málið prófraun fyrir framsóknarmenn þegar Halldór Ásgrímsson tekur við stjórnartaumunum. Jóhann segir ríkisstjórnina hafa lafað saman á samkomulaginu sem hún gerði við Öryrkjabandalagið fyrir kosningarnar í fyrra því fyrir lá að öryrkjar ætluðu að láta í sér heyra. Það gerðu þeir hins vegar ekki vegna samkomulagsins. Hún segist heldur ekki trúa því að þingmenn Framsóknarflokksins ætli ekki að standa við bak heilbrigðisráðherra í þessu máli. „Maður spyr auðvitað í hvers lags þjóðfélagi maður býr þegar öryrkjar þurfa í fjórða sinn á stuttum tíma að leita réttar síns fyrir dómstólum,“ segir Jóhanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×