Lífið

Hugleiðsluhorn Guðmundar Ólafs

Þegar Guðmundur Ólafsson leikari og leikskáld þarf að hreinsa til fyrir nýjum hugmyndum sest hann í gamla stólinn í horninu á þétt skipuðu vinnuherberginu og grípur í gítarinn. Stólinn góða erfðu þau hjón frá tengdaforeldrum Guðmundar og hefur hann verið í miklu uppáhaldi síðan. "Ritstíflur gera stundum vart við sig eftir langa setu við tölvuna og þá er gott að geta brugðið sér frá og hreinsað hugann. Gítarinn sem ég var svo lánsamur að fá í fimmtugsafmælisgjöf frá fjölskyldunni hefur staðið sig vel og þegar ég hef hjúfrað um mig í gamla góða stólnum og slegið nokkra tóna á gítarinn er hugurinn yfirleitt orðinn heiður og skýr og tími kominn til að setjast aftur við tölvuna og láta sér detta einhverja snilld í hug, helst eitthvað ódauðlegt." Guðmundur er um þessar mundir að sýna leikrit sitt Tenórinn í Iðnó en það hefur gengið fyrir fullu húsi í marga mánuði. Svo er hann alltaf að skrifa og nú á hug hans allan handrit að nýjum sjónvarpsþáttum sem kallast Kallakaffi og eru væntanlegir til sýningar snemma á næsta ári hjá Sjónvarpinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×