Viðskipti innlent

Ríkið eignast Landsvirkjun

Ríkið eignast hlut Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun á næsta ári gangi áætlanir sérstakrar eigendanefndar eftir. Hlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun er að minnsta kosti þrjátíu milljarða króna virði. Þingflokkum stjórnarliðsins var gerð grein fyrir stöðu málsins í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu gera áætlanir ráð fyrir því að Landsvirkjun verði að fullu komin í eigu ríkisins um þarnæstu áramót.  Eigendanefnd hefur verið að kasta á milli sín tölum að undanförnu og undirbúið jarðveginn fyrir fundi Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og Þórólfs Árnassonar borgarstjóra en þau hafa fundað nokkrum sinnum frá því í sumar. Auk þeirra hafa Kristján Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Geir H. Haarde fjármálaráðherra komið að þessari vinnu. Til stóð að undirrita viljayfirlýsingu þessa efnis í dag en texti hennar liggur ekki enn fyrir. Það er yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að losa sig út úr rekstri Landsvirkjunar. Þær tölur sem eru undir eru háar: Talið er að verðmæti 45% hlutar Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun nemi um 25-30 milljörðum og 5% hlutur Akureyrarbæjar um 2-3 milljörðum. Sú hugmynd sem kom málinu á verulegt skrið var að ríkið greiddi kaupverðið upp í skuldbindingar Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Inn í þessar áætlanir falla hugmyndir ríkisins um að sameina Rafmagnsveitu ríkisins og Orkubú Vestfjarða við Landsvirkjun. Við það yrði sú grundvallarbreyting á Landsvirkjun að hún yrði bæði heildsölu- og smásölufyrirtæki í orku, rétt eins og Orkuveita Reykjavíkur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×