Innlent

Deilt um þingsköp

Stjórnarandstæðingar deildu hart á fundarstjórn Birgis Ármannssonar, varaforseta Alþingis í umræðum um Írak í gær. Leyfði Birgir Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra að tala þrisvar í umræðu um störf þingsins sem var að frumkvæði Steingríms J. Sigfússonar, vinstri grænum. Átaldi Steingrímur Birgi fyrir þetta og benti á ákvæði þingskaparlaga um að í umræðum af því tagi sem fram hefðu farið mætti hver þátttakandi aðeins tala tvisvar. Forseti vísaði til fordæma sem byggðu á ákvæðum stjórnarskrár um að ráðherrar mættu taka til máls að vild á Alþingi. Bryndís Hlöðversdóttir, Samfylkingu gagnrýndi þessa lögskýringu og sama gerði Kristinn H. Gunnarsson, Framsóknarflokki. Hann benti á að víða í þingsköpum væri sérstaklega tekið fram hve oft ráðherrar mættu tala í umræðum með takmörkuðum ræðutíma. "Ef skýringar forseta standast er æði margt sem við þurfum að athuga í okkar þingsköpum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×