Innlent

Málshöfðun í farvatninu

Gremja og reiði ríkja í garð hafnfirskra bæjaryfirvalda, sem fyrr á árinu ákváðu að fela einkafyrirtæki að annast ræstingar stofnana bæjarins. Fyrirtækið Sólar ehf. hreppti hnossið í útboði og yfirtók ræstingar í leik- og grunnskólum auk annarra stofnana. Verkalýðsfélagið Hlíf gætir hagsmuna starfsfólksins sem telur á sér brotið og er líklegt að málið fari fyrir dómstóla. "Við sjáum ekki annað en að kjarasamningar séu brotnir og munum því leita réttar okkar fyrir dómstólum," segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar. Ræstitæknum var sagt upp störfum og boðin endurráðning fyrir sömu laun en meiri vinnu. Við það una þeir ekki. "Verktakinn vill meina að hægt sé að vinna ákveðin verk á þremur stundum sem áður voru unnin á átta til níu stundum. Mér finnst ósköp eðlilegt að eitthvað verði endurskipulagt og breytist en þarna er gengið of langt," segir Kolbeinn. Enn er óvíst hvort mál verður höfðað á hendur Hafnarfjarðarbæ eða Sólar ehf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×