Innlent

Ekkert útilokað

Jón Kristjánsson, nýskipaður formaður stjórnarskrárnefndar segir það misskilning að ekki komi til greina að breyta öðrum köflum stjórnarskrárinnar en þeim sem sérstaklega eru tilgreindir í skipunarbréfi nefndarinnar. Jón bendir á að aðeins sé talað um að huga "einkum" að fyrsta, öðrum og fimmta kafla stjórnarskrárinnar. "Það þýðir ekki að annað sé útilokað. Mannréttinda- og kosningakaflinn hafa nýlega verið endurskoðaðir og því liggur ekki á að fara í þá". Jón minnir á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé sérstaklega kveðið á um að ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá. Aðspurður um hvers vegna fimmti kaflinn sé tilgreindur segist Jón ekki hafa aðra skýringu á hraðbergi en að eðilegt hefði þótt að huga að stöðu "þriðja valdsins" fyrst fara ætti í saumana á "fyrsta" og "öðru valdinu". "Ég geng til þessa verks með opnum huga", segir Jón Kristjánsson. Hann segist búast við að boða til fundar í nefndinni eins skjótt og auðið er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×