Innlent

Hús OR 32% fram úr kostnaðaráætlun

Heildarkostnaður við nýjar höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur er tæpir 4,3 milljarðar króna. Kostnaður við aðalbygginguna fór 32% fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun en stjórnarformaðurinn segir þá áætlun hafa verið ranga. Hann segir fermetraverð hússins svipað og í vandaðri grunnskólabyggingu. Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur eru áberandi og að margra mati glæsilegar, en einnig umdeildar. Heildarstærð höfuðstöðvanna er 22.700 fermetrar og heildarkostnaður við þær 4.257 milljónir króna. Um er að ræða svokallað Norðurhús, bílastæðahús, lóð og tengibyggingu Norðurhúss við aðalbygginguna. Kostnaður við aðalbygginguna á verðlagi janúars 2003 er tæpir 3,3 milljarðar króna. Kostnaðaráætlun þegar gert hafði verið ráð fyrir þúsund fermetra stækkun á sama verðlagi var tæpir 2,7 milljarðar. Húsið reyndist því 32% dýrara en upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður OR, segir fermetraverð hússins svipað og í vandaðri grunnskólabyggingu í Reykjavík. Spurður hvort upphafleg kostnaðaráætlun hafi verið röng segir hann ýmsar skýringar á því, t.d vegna þess að ekki hafi verið gert ráð fyrir loftræstikerfi sem seinna hafi verið gerð krafa um og að byggingin hafi stækkað um þúsund fermetra frá því sem gert var ráð fyrir í upphafi. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×