Innlent

Komið til móts við bændur

Ekki hefur verið reiknað út hver hækkun raforkuverðs til gróðurhúsabænda verður vegna breytinga á raforkulögum, að sögn Drífu Hjartardóttur, formanns landbúnaðarnefndar. Gróðurhúsabændur hafa hingað til notið afsláttar hjá Landsvirkjun, en með breyttum lögum má ekki lengur selja raforku á mismunandi verði, eftir því til hvers rafmagnið er notað. Auk þessa afsláttar fá gróðurhúsabændur framlag úr ríkissjóði til að niðurgreiða rafmagn. Drífa segir því flókið mál að reikna út hækkun raforkuverðs til garðyrkjubænda, en málið verði örugglega leyst og þeir verði ekki látnir sitja uppi með 30-100 prósent hækkun. Helgi Bjarnason, skrifstofustjóri orku- og stóriðjumála í Iðnaðarráðuneytinu segir að á allra næstu dögum muni skýrast hver hækkunin verði fyrir einstaka notendahópa, svo sem þá sem notast við rafhitun. Í lok þessarar viku ætti að skýrast hver hækkunin verður hjá gróðurhúsabændum. Í næstu viku mun svo koma í ljós hver hækkunin verður hjá fiskeldisfyrirtækjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×