Innlent

Ekkert fararsnið á Alfreð

Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir ekkert fararsnið á sér úr borgarpólitík. Hann blæs á þau sjónarmið samflokksmanna sinna í Framsóknarflokknum að tími sé kominn til að hann snúi sér að öðrum verkefnum og segir gagnrýnina eiga rætur að rekja til vonbrigða þeirra með eigin framgöngu. Rammt kveður að gagnrýni á Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, á umræðuvettvangi framsóknarmanna á Netinu, Hriflu.is. Gestur Kr. Gestsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkurkjördæmis norður, sagði Alfreð eiga að snúa sér að öðrum verkefnum og viðlíka viðhorf má lesa í pistli Guðjóns Ólafs Jónssonar, varaþingmanns Framsóknarflokksins. Guðjón segir engan sérfræðing þurfa til að átta sig á að eftir 35 ára starf að borgarmálum hljóti að vera farið að styttast eitthvað í annan endann á stjórnmálaferli Alfreðs Þorsteinssonar. Alfreð segir að ekkert fararsnið sé á honum. Aftur verið kosið á næsta ári og hann hafi mjög öflugan stuðning meðal framsóknarmanna í Reykjavík og þó að einhverjir einstaklingar, hvort sem þeir heiti Gestur eða Guðjón Ólafur, séu með einhverjar sérstakar skoðanir á því breyti það engu fyrir hann. Aðspurður um það hvernig það sé að sitja undir gagnrýni flokksfélaga segir Alfreð að þeir sem þarna eigi í hlut eigi harma að hefna vegna þess að þeir séu óánægðir með að sitja ekki í þeim nefndum og ráðum á vegum Reykjavíkurborgar sem þeir hafi sóst eftir. Guðjón Ólafur hafi lengi verið formaður stjórnar Strætós en vegna breytinga hafi hann þurft að víkja úr því sæti. Gestur hafi sóst eftir sæti í nefndum og ráðum á vegum borgarinnar en ekki haft stuðning til þess. Alfreð segist búast við að þetta hafi haft einhver áhrif á skoðanir þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×