Innlent

Deilt um stuðningsyfirlýsingu

"Mönnum finnst að Gylfi sé að taka að sér umboð sem hann ekki hefur og það sé ómaklegt," segir Árni Guðmundsson formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og félagi í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar. Árni ásamt fleirum úr ráðinu sendu frá sér yfirlýsingu þar sem það er áréttað að Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ og félagi í verkalýðsmálaráði, tali ekki fyrir hönd ráðsins en Gylfi hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hann og fleiri forystumenn verkalýðshreyfingarinnar munu líklega styðja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í formannskjöri Samfylkingarinnar. "Gylfi hefur ekkert umboð nema sem einstaklingur og þó hann sé í verkalýðsmálaráði flokksins er það enginn vettvangur til að ræða formannskjör." Gylfi Arnbjörnsson furðar sig á yfirlýsingunni og segist ekki hafa verið að tala í nafni verkalýðsmálaráðs."Það er augljóst að það eru rúmlega 30 manns í ráðinu og það hvarflar ekki að mér að það geti einhver einn maður talað í nafni þess," segir Gylfi. "Ég var að tala í eigin nafni og nokkurra sem ég þekki til."
EOL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×