Innlent

Heilbrigðisvottorða krafist

Árni Magnússon félagsmálaráðherra gerði grein fyrir niðurstöðu ráðuneytisstjórahópsins svokallaða í ríkisstjórn í morgun og talaði bæði við fulltrúa ASÍ og SA í gær. Til að koma til móts við gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar vegna Impregilo hefur verið ákveðið að gera breytingar á reglum við útgáfu atvinnuleyfa. Umsókn erlendra starfsmanna þurfa að fylgja heilbrigðisvottorð frá heimalandi viðkomandi og verða engin leyfi gefin út nema slík vottorð liggi fyrir. Starfsréttindi útlendinga er til umfjöllunar í vinnu við reglugerð um útgáfu atvinnuleyfa. Reglugerðinni verður flýtt og verður hún gefin út á næstu dögum. Þar verður skýrt með hvaða hætti eigi að horfa til þeirra. Ráðuneytið telur að borgarar EES hafi forgang að störfum hér og verða settar reglur um það. Þá verður skoðað hvort fara eigi í útgáfu á nýrri tegund atvinnuleyfa sem felur í sér minni réttindaáherslu en nú en mikil stígandi hefur verið í leyfum undanfarin ár. Árni segir að rætt hafi verið við dómsmálaráðherra um það útgáfa atvinnu og dvalarleyfa eigi að vera á einni hendi og niðurstaðan sú að þannig verði. Undirbúningur að því er hafinn og þykir líklegt að Útlendingastofnun fái þetta hlutverk. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er líklegt að löggæsla verði aukin á Kárahnjúkum en verkalýðshreyfingin hefur gagnrýnt að lögregla sjáist lítið þar. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að félagsmálaráðherra hafi látið "góð orð" falla á fundi sínum með verkalýðshreyfingunni en farið verði yfir þetta mál á miðstjórnarfundi ASÍ í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×