Innlent

Grjóthörð láglaunapólitík

Almennir starfsmenn Hafnarfjarðar vilja að bærinn taki upp sjálfstæða launastefnu gagnvart þeim og hætti að láta launanefnd sveitarfélaganna semja um kjör þeirra á milli. Var það samþykkt einróma á ríflega 70 manna aðalfundi Starfsmannafélags Hafnarfjarðar 19. janúar. Árni Guðmundsson, formaður félagsins, segir stefnu launanefndar sveitarfélaganna mjög fjandsamlega gagnvart almennu launafólki. "Almennum bæjarstarfsmönnum finnst illa farið með sig launalega. Þeim finnst ábyrgðarhluti hjá bæjarfélögum að láta málin þróast út í þessa grjóthörðu láglaunapólitík eins og orðið er," segir Árni. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir ályktun starfsmannafélagsins verða á borði bæjarráðs í næstu viku. Afstaða til hennar hafi ekki verið tekin. Með samstarfi sveitarfélaga sé ekki stefnt á lág laun. "Sveitarfélögin hafa sýnt það í samningum sem hafa verið gerðir að undanförnu. Þar hafa orðið hækkanir umfram það sem mörg hafa verið sátt við," segir Lúðvík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×