Innlent

Reiðubúinn að leiða í Kópavogi

Ómar Stefánsson, formaður Framsóknarfélagsins í Kópavogi, kveðst reiðubúinn að leiða flokkinn í bæjarstjórnarkosningunum á næsta ári. Aðalfundur Framsóknarfélagsins í Kópavogi fór fram í gærkvöldi og var Ómar endurkjörinn formaður félagsins. Á annað hundrað manns skráði sig í Framsóknarflokkinn í Kópavogi í gær og var búist við átakafundi líkt og hjá Freyju, félagi framsóknarkvenna í bæjarfélaginu, á dögunum. Enginn bauð sig hins vegar fram gegn Ómari og var fundurinn að mestu átakalaus að sögn viðstaddra. Er það í takti við óskir Björns Inga Hrafnssonar, aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, í fréttum Stöðvar tvö í gær þar sem hann sagðist vona að framsóknarmenn færu nú að slíðra sverðin eftir miklar innanbúðarerjur undanfarið. Ómar Stefánsson var kosinn með lófaklappi og sagðist hann í samtali við fréttastofuna í morgun afar sáttur við það traust sem honum væri sýnt. Hann stefnir að því að verða bæjarstjóri í Kópavogi eftir fimm ár, eða í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna árið 2010. Aðspurður hvort hann muni ekki sækjast eftir því að leiða flokkinn í næstu sveitarstjórnarkosningum, sem fara munu fram eftir rúmlega ár, segir Ómar það alfarið ráðast af því hvað núverandi bæjarstjóri í Kópavogi, Hansína Ásta Björgvinsdóttir, hyggist gera. Hann hafi ávallt stutt hana í hennar verkum en ef hún sækist ekki eftir því að leiða flokkinn sé Ómar reiðubúinn að gera það. Í samtali við fréttastofuna í morgun sagðist Hansína munu sækjast eftir fyrsta sætinu á lista framsóknarmanna í kosningunum á næsta ári en prófkjör mun skera úr um röð frambjóðenda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×