Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn í lægð

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um 33,5 prósent að meðaltali úr síðustu ellefu skoðanakönnunum Fréttablaðsins sem ná frá ágúst mánuði árið 2003 til 1. febrúar síðastliðins. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33,7 prósenta fylgi í síðustu alþingiskosningum. Það er þriðja lakasata útkoma flokksins frá upphafi. "Ef Sjálfstæðisflokkurinn er að festa sig í þessu fylgi þá er það mjög lítið fyrir flokkinn," segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. "Flokkar eru samt ekkert mjög fastir í ákveðnu fylgi núna. Það eru meiri sveiflur en tíðkast hefur." Gunnar Helgi segir að fylgi sjálfstæðisflokksins undanfarið sé sérstaklega lítið þegar horft sé til þess að það hafi löngum loðað við flokkinn að mælast með meira fylgi í skoðanakönnunum en hann fær síðan í kosningum. Hann segir að ef til vill sé ástæða fyrir sjálfstæðismenn að hafa nokkrar áhyggjur af stöðunni og eflaust hafi þeir áhyggjur af þeirri lægð sem flokkurinn sé í. Sú staðreynd að Samfylkingin sé ítrekað að mælast með svipað fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn séu slæmar fréttir fyrir sjálfstæðismenn. Gunnar Helgi segir að eflaust séu nokkrar ástæður fyrir því að flokkurinn sé að mælast með að jafnaði um 33,5 prósent fylgi í skoðanakönnunum. Fjölmiðlafrumvarpið hafi verið flokknum erfitt síðan sé flokkurinn búinn að vera samfleygt í ríkisstjórn síðan árið 1991. "Þegar flokkur er búinn að vera svona lengi í ríkisstjórn þá segir það sig sjálft að það er erfitt að vera aðlaðandi og spennandi kostur í augum kjósenda. Flokkurinn hefur líka átt erfitt með að höfða til kvenna undanfarin ár og það hlýtur að valda forystumönnum hans áhyggjum." Gunnar Helgi segist ekki telja að Íraksmálið hafi mikil áhrif á fylgi flokksins. Rík tilhneiging sé til þess að utanríkismál hafi ekki mikil áhrif í innanlandsstjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×