Innlent

Aldrei verið óvinsælli

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra er sá stjórnmálamaður sem nýtur minnsts trausts um þessar mundir en þriðjungur þeirra sem afstöðu tóku í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins ber minnst traust til hans. Í sömu könnun segja einungis 3,8 prósent svarenda Halldór vera þann stjórnmálamann sem þeir beri mest traust til. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir tvær meginástæður fyrir þessari útkomu hjá forsætisráðherranum. "Annars vegar kemur hann úr litlum flokki og nýtur þess vegna ekki þess grunns sem til dæmis Davíð Oddsson nýtur. Hins vegar er hann búinn að lenda í erfiðum málum þessa fyrstu mánuði sína í embætti," segir Gunnar Helgi og vísar þar til Íraksmálsins og innanflokkserja í Framsóknarflokknum. Davíð Oddsson utanríkisráðherra er trúverðugasti stjórnmálamaður þjóðarinnar um þessar mundir en ríflega fjórðungur landsmanna segist bera mest traust til hans þótt hann hafi lítið verið í sviðsljósinu að undanförnu. Gunnar Helgi segir Davíð þar njóta hins mikla fastafylgis Sjálfstæðisflokksins en bendir auk þess á að hann hafi síður blandast í hin umdeildu mál sem gert hafa Halldóri svo erfitt fyrir. Fjórðungur fólks telur þó Davíð þann stjórnmálamann sem það treystir síst. Úrtakið í könnuninni var 800 manns. Það skiptist jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var annars vegar: "Til hvaða stjórnmálamanns berð þú mest traust til um þessar mundir?" og hins vegar: "Til hvaða stjórnmálamanns berð þú minnst traust til um þessar mundir?" 49,75 prósent þátttakenda svöruðu fyrri spurningunni en 57,75 prósent þeirri síðari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×