Innlent

Ingibjörg gleymir holræsagjaldinu

"Hún er að segja ósatt," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um þau orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrum borgarstjóra, í Fréttablaðinu á laugardag að álagningarhlutfall fasteignagjalda hafi ekki hækkað. "Þegar hún segir að álagningarhlutfallið hafi ekki hækkað af fasteignagjöldunum gleymir hún einum litlum holræsaskatti sem er hækkun upp á 20 til 30 prósent," segir Guðlaugur Þór. "Í öðru lagi segir hún það staðreynd að gjöld á eignir manna séu hvergi lægri á höfuðborgarsvæðinu en í Reykjavík. Það er alrangt. Seltjarnarnesbær er ekki með neitt holræsagjald og þar af leiðandi með lægstu gjöldin á eignir. Síðan eru fleiri sveitagjöld með jafn mikla eða lægri fasteignaskatta en Reykjavíkurborg." Ingibjörg Sólrún sagði í Fréttablaðinu á laugardag að það væri rangt hjá Guðlaugi Þór að lóðaskortur hefði hækkað fasteignaverð. "Ég bið þá bara fólk að taka vel eftir því að hér er komin ný hagfræðikenning sem gjörbyltir öllum hugmyndum manna um framboð og eftirspurn," segir Guðlaugur Þór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×