Innlent

Tíu hús verða ekki rifin

Að minnsta kosti tíu af þeim 25 húsum við Laugaveg sem borgaryfirvöld hafa heimilað að megi rífa verða ekki rifin á næstu misserum. Fréttablaðið hafði samband við eigendur flestra húsanna og spurði um áform þeirra í kjölfar úrskurðar borgaryfirvalda. Við Laugaveg 5 er Skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar meðal annars til húsa. Eigandi verslunarinnar segir að ekkert hafi verið ákveðið í þessum efnum. Íbúðareigandi í húsinu segir að málið hafi ekki verið rætt í húsfélaginu og byggingaverktakar hafi ekki sýnt áhuga á lóðinni. Við Laugaveg 11 er veitingahúsið Ítalía en húsið er í eigu Gerðubergs ehf. Forsvarsmenn þess segja að ekki standi til að selja húsið. Við Laugarveg 17 eru verslanir og íbúðir. Skipulagssjóður Reykjavíkur á hlut í húsinu en íbúðareigandi segist ekki vilja selja, en byggingaverktakar hafi sýnt fasteigninni áhuga um skeið. Við Laugaveg 20A er Kaffi List en húseigandi er Serína ehf. Forsvarsmenn þess segja að nýbúið sé að gera húsið upp og ekki sé áhugi fyrir því að selja það eða rífa. Við Laugarveg 27 eru verslanir og hárgreiðslustofa. Einn eigandinn segir að málið hafi komið til tals innan húsfélagsins en engin samstaða hafi náðst um það og engin tilboð hafi borist frá byggingaverktökum. Járnvöruverslunin Brynja er við Laugarveg 29 og segir eigandinn að ekki verði hróflað við húsinu.Nokkrar verslanir standa við Laugaveg 55. Kolbrún S. Guðmundsdóttir eigandi segir að nýbúið sé að gera endurbætur á húsnæðinu og til standi að opna kaffihús á næstunni. Verslun P. Eyfelds er við Laugarveg 65. Pétur Eyfeld, eigandi segir að hann hafi ekki hug á að selja húsið. Við Laugaveg 67 er verslun og íbúð. Húsnæði verslunarinnar er í eigu Skipulagssjóðs Reykjavíkur en eigandi íbúðarinnar segir að sér hafi ekki borist nein tilboð frá byggingaraðilum. Við Laugaveg 69 eru verslanir og íbúðir en eigandi hússins segist ekki ætla að selja húsið né rífa það í bili. Í húsinu við Laugaveg 73 er bar og kaffihús og segist eigandinn ekki ætla að selja húsið né rífa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×