Innlent

Þingmenn tala af vanþekkingu

Fyrrverandi framkvæmdastjóri tóbaksvarnanefndar segir þingmenn tjá sig af mikilli vanþekkingu um hugsanlegt bann við reykingum á veitinga- og kaffihúsum. Hann bendir á að samkvæmt rammasamningi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar geti Ísland ekki skorast undan því að vernda fólk gegn tóbaksreyk á öllum opinberum stöðum. Í kjölfar frumvarps Sivjar Friðleifsdóttur Framsóknarflokki um bann við reykingum á kaffihúsum og veitnga- og skemmtistöðum, hafa þingmenn tjáð sig fjálglega um málið og af mikilli vanþekkingu, að mati Þorgríms Þráinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Tóbaksvarnarnefndar. Honum finnst með ólíkindum að þingmenn skuli ekki hafa lesið rammasamning sem utanríkisráðuneytið gerði við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina sl. vor þar ríkisstjórn Íslands skuldbindur sig til að vernda fólk gegn reykingum á öllum opinberum stöðum. „Mér finnst ég ekki geta orða bundist þegar maður sér fólk í þjóðfélaginu, og ekki bara þingmenn, vaða uppi með rangindi og vitleysu þegar staðreyndirnar liggja fyrir og við höfum skuldbundið okkur til að taka ákveðið skref í tóbaksvörnum,“ segir Þorgrímur. Hann segir þjóðir eins og Ítali, Svía og Kúbverja búnar að skrifa undir sama samning og séu núna að stíga skrefið til fulls. Samkvæmt rammasamningi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar viðurkenna aðildarríkin meðal annars að tóbaksneysla sé faraldur sem breiðist út og geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir lýðheilsu í samfélaginu. Þorgrímur segir það miður að það sé feimnismál að fjalla um dauðsföll af völdum reykinga og bendir á að hér á landi látist 30 til 40 manns árlega af völdum óbeinna reykinga sem sé algerlega óásættanlegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×